Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:11:33 (6022)

2004-04-01 15:11:33# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., Frsm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Frsm. félmn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Hv. þm. Ögmundur Jónasson viðurkennir það hér, og ber að virða það, að hann veit ekki alveg hvaða lausn á að vera á því ef orkufyrirtæki vilja ganga til samstarfs við einkaaðila, svo sem eins og bændur, eða aðra sem kunna að fara út í þennan orkugeira eins og vindmylludæmið sem ég nefndi hér áðan eða aðra slíka. Frv. er einmitt sniðið að þessu umhverfi. En það eru ekki einkavæðingaráform sem búa þar að baki, heldur áform um að hafa sveigjanleikann til að geta farið í samstarf við slíka aðila sem ég tel af hinu góða og hefur ekkert með einkavæðingu að gera.

Þar að auki er einmitt með þessu almenna ákvæði í sveitarstjórnarlögunum, sem er vísað til og eins og þetta frv. er lagt upp með þar sem vísað er til hinna almennu arðsemissjónarmiða, þetta er bara alls ekkert mjög fýsilegt fyrir fjárfesta.

Að lokum vil ég bara segja það að ef menn ætluðu sér að einkavæða vatnsveitur mundu menn einfaldlega segja það. Það er ekkert flóknara en svo. Hér er ekki verið að fara inn á þá braut, enda eru menn ekkert að tala um það, ekki nema hv. þm. Ögmundur Jónasson, og ég held að hann sé eiginlega að búa sér til ímyndaðan óvin. Ef menn ætluðu sér að fara út í þær hugmyndir mundu menn einfaldlega segja það.