Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:37:31 (6028)

2004-04-01 15:37:31# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., Frsm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:37]

Frsm. félmn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var að mörgu leyti athyglisverð ræða. Það er eins og hv. þm. Jón Bjarnason hafi verið búinn að sefja sig upp í að ræða um frv. sem fæli í sér einkavæðingu. En það hefur margsinnis komið fram að það er ekki markmið frv. og tilgangurinn er ekki sá.

Hv. þm. nefndi einkavæðingu Landssímans, og það er alveg rétt, ríkisstjórnarflokkarnir hafa tekið ákvörðun um það og hafa flutt frv. um það sem hefur verið samþykkt og þá segja menn að þeir ætli sér að einkavæða. Hefðu menn ætlað sér að einkavæða vatnsveiturnar með þessu frv. hefðu menn líka sagt það.

Ég vil segja enn einu sinni að hér er verið að opna fyrir þann möguleika að samruni geti átt sér stað milli starfandi orkufyrirtækja og einkaaðila á borð við bændur í orkugeiranum sem vilja hugsanlega fara til samstarfs við slíka aðila. Það er mjög mikilvægt að opna fyrir þann sveigjanleika. Ef sá sveigjanleiki er ekki settur inn verða bændur, sem eru með veitur sínar og vilja hugsanlega fara í samstarf við aðra eða nýir aðilar sem t.d. ætla sér að koma upp vindgörðum til að framleiða rafmagn, úti. Og ég trúi því ekki að hv. þm. Jón Bjarnason leggist gegn slíku samstarfi m.a. hjá bændum.