Greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 16:00:13 (6032)

2004-04-01 16:00:13# 130. lþ. 93.6 fundur 829. mál: #A greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga# (ÍLS-veðbréf) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, nr. 63/1985, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er lagt fram í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, sem ég hef þegar mælt fyrir. Í því frumvarpi er lögð til endurskipulagning á skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs. Eitt af nýmælum þess frumvarps er ÍLS-veðbréf. ÍLS-veðbréfum er ætlað að koma í stað fasteignaveðbréfa Íbúðalánasjóðs.

Hæstv. forseti. Upphaflegur tilgangur laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga var að jafna greiðslubyrði af fasteignaveðlánum einstaklinga sem tekin voru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Skyldi misgengi sem orsakast af hækkun lánskjaravísitölu eða annarrar viðmiðunarvísitölu lána umfram hækkun launa ekki valda því að greiðslubyrði af lánum þyngdist. Í frumvarpi þessu er lagt til að við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi:

,,Ákvæði laga þessara taka þó ekki til ÍLS-veðbréfa sem Íbúðalánasjóður veitir eða afgreiðir frá og með 1. júlí 2004.``

Einnig er lagt til að breyting þessi taki þegar gildi.

Nauðsynlegt þykir að undanskilja ÍLS-veðbréf ákvæðum laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga þar sem þessi gömlu lög valda því að áætlað innstreymi útlána verður óvisst en það eykur að einhverju marki vaxtaáhættu Íbúðalánasjóðs.

Hæstv. forseti. Benda má á að Íbúðalánasjóður hefur fengið heimildir til að mæta greiðsluerfiðleikum lántakenda samkvæmt 48. gr. laga um húsnæðismál og reglugerð um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs. Má þar nefna skuldbreytingu á vanskilum í nýtt lán, frystingu lána og lengingu lána. Telja verður að þessi greiðsluerfiðleikaúrræði geti komið í stað ákvæða laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

Varðandi frekari umfjöllun um frv. er vísað í meðfylgjandi greinargerð með frv.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hæstv. félmn.