Aðild starfsmanna að Evrópufélögum

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 16:14:03 (6035)

2004-04-01 16:14:03# 130. lþ. 93.10 fundur 402. mál: #A aðild starfsmanna að Evrópufélögum# (EES-reglur) frv. 27/2004, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[16:14]

Frsm. félmn. (Hjálmar Árnason):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um aðild starfsmanna að Evrópufélögum, frá hv. félmn. Frumvarpið tengist frv. sem var til umræðu undir síðasta dagskrárlið, um stofnun Evrópufélaga, en frv. sem er til umræðu nú lýtur að aðild starfsmanna að slíkum Evrópufélögum.

Megintilgangur frumvarpsins er að tryggja rétt starfsmannafélaga, sem kunna að verða rekin í Evrópufélagsforminu eins og var lýst undir síðasta dagskrárlið, og þátttöku starfsmanna í stjórn slíkra félaga. Frumvarpið er lagt fram til innleiðingar á tilskipun ráðsins, nr. 86/2001, og um viðbætur við stofnsamþykktir fyrir Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, sem vísað er til í lið 32e XVII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 89/2002, hvorki meira né minna.

Í athugasemdum sem nefndinni bárust og í skýringum frá Guðjóni Bragasyni, starfsmanni félmrn., kemur fram að í frv. er öllum meginatriðum ákvæðum tilskipunarinnar fylgt en einmitt vegna þess hvers eðlis málið er þarf að vera samræmi milli innleiðingar tilskipunarinnar í íslenskan rétt og þess hvernig tilskipunin er innleidd í rétt annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Gert er ráð fyrir að tilskipunin taki gildi 8. október 2004 og skulu öll aðildarríkin hafa innleitt hana á þeim degi. Þess vegna er mikilvægt að fylgjast að með félögum okkar innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Nefndin gerir ekki miklar breytingar. Það eru aðeins orðalagsbreytingar sem raktar eru á þskj. 1289. Þó er ein efnisleg breyting um gildistöku frumvarpsins, en samkvæmt breytingartillögum okkar er lagt til að gildistakan sé 8. október 2004.

Að svo mæltu, virðulegur forseti, mælist ég og hv. félmn. til þess að frv. verði samþykkt með þeim smávægilegu breytingum sem ég nefndi.

Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér stendur hv. þm. Ásta Möller, Guðjón Hjörleifsson, Birkir J. Jónsson, Pétur H. Blöndal, Valdimar L. Friðriksson, Jóhanna Sigurðardóttir, Helgi Hjörvar og Gunnar Örlygsson.