Horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 16:06:31 (6051)

2004-04-05 16:06:31# 130. lþ. 94.95 fundur 459#B horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Í íslenskum sjávarbyggðum veldur það alltaf kvíða og óróa þegar útlit er fyrir að breytingar verði á eignarhaldi þeirra fyrirtækja sem eru undirstaða atvinnulífs í byggðarlaginu, og skyldi engan undra.

Á Djúpavogi er staðan þannig að þegar Vísir keypti Búlandstind af sömu aðilum og nú ætla að búta niður fyrirtækið Festi --- en þeir aðilar eru forverar og bakhjarlar Kers hf. --- var um það samkomulag að bræðslan yrði seld til aðila sem mundu standa myndarlega að rekstri hennar. Þessu trúðu sveitarstjórnarmenn, stjórnvöld og við þingmenn Austurlands sem beittum okkur fyrir því að koma hafnarmálum á Djúpavogi í það góða ástand sem er þar nú. Þessu trúðu einnig forsvarsmenn Vísis sem lögðu í hundruð milljóna kr. fjárfestingar til þess að geta nýtt síldaraflann og uppsjávarfiskinn sem best.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvaða viðskiptasiðferði menn hafa sem hafa stjórnað undanfara alls þessa máls.

Hæstv. forseti. Nú er uppi viðkvæm staða. Forsvarsmenn Skinneyjar -- Þinganess hafa uppi áform um að halda áfram rekstri verksmiðjunnar sem er auðvitað mikilvæg forsenda þess að síldarverkun geti verið hagkvæm hjá Vísi. Það er einnig ánægjulegt að Vísir og Samherji hafa nú ákveðið að taka upp öflugt samstarf sem forsvarsmenn Vísis hafa tjáð mér að muni verða til þess að styrkja undirstöðurnar á Djúpavogi.

Hæstv. forseti. Nú er mikilvægast að vinnsla geti haldið áfram sem undirstaða byggðar á Djúpavogi. Þar eru miklar fjárfestingar og mikill mannauður og nauðsynlegt að það allt nýtist sem best.