Horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 16:15:35 (6055)

2004-04-05 16:15:35# 130. lþ. 94.95 fundur 459#B horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi# (umræður utan dagskrár), DJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Dagný Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Atvinnuástandið á Djúpavogi eða öllu heldur horfur í atvinnumálum þar hafa verið mjög til umræðu að undanförnu og ekki að tilefnislausu. Ástandið hefur verið gott þar undanfarin ár og hafa íbúar t.d. verið ánægðir með að fyrirtækið Vísir skyldi setja sig þar niður og fjárfesta mikið í uppbyggingu fyrirtækisins. Nú gæti hins vegar farið svo að möguleikar fyrirtækisins til að stunda áfram vinnslu síldar yrðu takmarkaðir.

Ég ætla mér ekki að fara út í smáatriði málsins en læt þess þó getið að ég fór austur á Djúpavog á föstudaginn og kynnti mér málavöxtu. Það virðist nokkuð ljóst að ekki hafa allir fengið sömu tækifæri til að koma að borðinu þar sem höndlað er með þær eignir og aflaheimildir sem nú virðast í uppnámi á Djúpavogi. Menn vita ekki hvort kaupendur ætla sér að halda bræðslunni opinni á vertíðartíma. Það gefur augaleið að ef hún verður ekki starfrækt á síldarvertíðinni á fyrirtækið Vísir mjög erfitt með að losna við síldarúrgang en hann er um 5 tonn á vertíð. Ég vona innilega að staðan skýrist fljótt og kaupendur sýni samfélagslega ábyrgð.

Djúpavogsbúar hafa í gegnum tíðina verið þekktir fyrir þrautseigju sína og sannast það enn í þessu máli. Ég fann það á ferð minni austur að menn halda í vonina og vonandi munu nýir eigendur sjá hag í því að nýta þá aðstöðu sem þarna er til staðar, enda hefur verið mikið fjárfest í t.d. uppbyggingu hafnarmannvirkja á síðustu árum. Það er ekki verið að biðja um neina ölmusu í þessu máli heldur eingöngu að viðskiptin séu uppi á borðinu, allir eigi jafna aðkomu að þeim, og að sú starfsemi sem fram fer á Djúpavogi og hefur skilað hagnaði fái að halda áfram. Óvissan er verst. Ég tek undir vonir hæstv. iðnrh. um að farsæl lausn finnist sem allra fyrst. Samstarf Vísis og Samherja er vissulega jákvætt skref í þessari baráttu.