Horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 16:23:59 (6059)

2004-04-05 16:23:59# 130. lþ. 94.95 fundur 459#B horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og þau svör sem hafa verið veitt. Ég er sammála hv. þm. Halldóri Blöndal um að það er fallegt á Djúpavogi og það er gott að fjallið mikla, Búlandstindur, er á sínum stað. Ég vil taka sérstaklega fram að í þessari umræðu er af minni hálfu ekki falið neitt vantraust á nýja eigendur sjávarútvegsfyrirtækja og veiðiheimilda og að sjálfsögðu vonum við að vel úr rætist. En það breytir ekki hinu, þeim aðstæðum sem íbúar Djúpavogs standa nú frammi fyrir og hafa búið við undanfarnar vikur. Staða minni og meðalstórra byggða við sjávarsíðuna, þeirra sem ekki hafa höfuðstöðvar eða meginstarfsstöðvar einhverra af 10--15 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna, er og verður í óbreyttu kerfi algerlega óviðunandi. Sú óvissa vofir yfir hvern einasta dag að menn hafa enga tryggingu fyrir því að aðgangurinn að auðlindinni, undirstaða alls atvinnulífs og fjárfestinga í byggðarlögunum haldist þar kyrr. Og meðan eitthvert lágmarksöryggi hvað þennan aðgang að auðlindinni varðar er ekki tryggt eru líka fjárfestingar samfélagsins, ríkis og sveitarfélaga, í þeirri sömu stöðu og nú er um að ræða á Djúpavogi, fjárfestingar í hafnarmannvirkjum og öðru slíku upp á hundruð milljóna króna, að undan öllu slíku getur grundvöllurinn horfið með einni undirskrift undir sölusamning á veiðiheimildunum burt úr byggðarlaginu. Meðan það varir er ég algerlega sammála Kristni H. Gunnarssyni um að það verður áframhaldandi ólga í sjávarútvegi og mér finnst að Framsfl. hefði kannski átt að láta hann vera einn af þremur ræðumönnum sínum í dag til þess að tryggja jafnvægið í hlutunum.

Ég spurði hæstv. iðn.- og viðskrh. sem fer með byggðamál, af því að þetta er fyrst og síðast byggðamál: Hvað líður orðum stjórnarsáttmálans, fallegu orðunum um aðgerðir til að treysta stöðu sjávarbyggðanna? Eru þau bara til eins gangs brúks á fjögurra ára fresti eða er eitthvað meira á bak við þau?