Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 16:38:56 (6064)

2004-04-05 16:38:56# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Eins og hæstv. forsrh. sagði í framsögu fyrir þessu góða frv. þá er það samið að tilhlutan Þingvallanefndar. Ég vil byrja á að þakka bæði hæstv. forsrh. fyrir að hafa flutt þetta mál og liðsinnt því á allan hátt og sömuleiðis félögum mínum, hæstv. ráðherrum Guðna Ágústssyni og Birni Bjarnasyni, formanni nefndarinnar, fyrir ákaflega gott samstarf við undirbúning að frv. Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að tímabært væri að færa út mörk þjóðgarðsins, fyrir því liggja mörg rök.

Frú forseti. Ég nefndi þetta þjóðgarð þó svo sé ekki en það er samkvæmt almennri málhefð. Það er eitt af því sem þetta frv. breytir, að þetta svæði, þinghelgin, verður formlegur þjóðgarður.

Ástæðan fyrir því að ég tel að það sé brýnt og tímabært að færa út mörk þjóðgarðsins er sú að gestakomur í þjóðgarðinn hafa aukist mjög. Á hverju ári koma 700--800.000 gestir með einhverjum hætti til heimsóknar í þjóðgarðinn. Það er alveg ljóst að töluvert mikil ánauð er á því landi sem mest er sótt í þjóðgarðinn, og ekki síst þess vegna er nauðsynlegt að færa út mörkin. Sömuleiðis er svæðið orðið í vitund þjóðarinnar ein samfelld heild sem rétt er að staðfest sé lögum samkvæmt að þjóðin eigi sameiginlega, að þar sé um þjóðareign að ræða. Eins og hæstv. forsrh. gat um mun þetta frv., ef af lögum verður, leiða til þess að allur sá fagri fjallahringur sem við sjáum þegar við stöndum þar sem þingið stóð áður verði að sameiginlegri eign þjóðarinnar. Ég tel að það skipti miklu máli.

Ég vil líka lýsa tveimur skoðunum mínum sem tengjast framtíð þessa svæðis. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að þessu frv. fylgi frv. um vatnsvernd sem lengi hefur verið í burðarliðnum. Hæstv. umhvrh. hefur það á könnu sinni að flytja það frv. Mér þætti vænt um að það kæmi fram í umræðunni hvenær þess er að vænta og hvort einhverjir meinbugir séu á að það komi fram. Ástæðan fyrir því að ég inni eftir þessu er að ég tel að vatnasvæði, sem nær frá Langjökli og Skjaldbreiði niður í Þingvallavatn og síðan út í gegnum Úlfljótsvatn og alla leið eftir vötnum og ám út til hafs, sé ákaflega mikilvæg auðlind sem við verðum að vernda og varðveita.

Um síðari hluta þessarar aldar muni þéttbýlissvæðin á suðvesturhorninu þurfa á þeim vatnsforða sem þarna streymir til hafs að halda til framleiðslu og heimilishalds. Þarna er því um auðlind að ræða sem á eftir að verða ákaflega dýrmæt og því nauðsynlegt að vernda hana.

Jarðfræði þessa svæðis er hins vegar með þeim hætti að það er auðvelt að skemma það og menga. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að það sé í gadda slegið hvað má og hvað ekki á þessu svæði.

Ég spyr því hæstv. forsrh. og eftir atvikum umhvrh.: Hvenær er að vænta þessa frv.? Ætla menn ekki að láta þessi tvö frumvörp fylgjast að í gegnum þingið?

Ég vil að það komi fram að Samf. lítur á það sem brýnt mál að samþykkja þetta frv. sem við höfum hér til umræðu. Samf. mun leggja sig fram um að auðvelda leið þess og hraða gegnum þingið.

Í annan stað vil ég geta þess, frú forseti, að ég tel að þarna sé stigið mikilvægt skref í átt að stærri áfanga. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að horfa til langs tíma og þetta eigi ekki að vera síðasta skrefið. Ég tel að stefna eigi að því að í framtíðinni verði búinn til enn stærri þjóðgarður sem mundi ná að umlykja Þingvallavatn allt. Ég tel að það væri eðlilegt framhald af samþykkt frv. um vatnsvernd.

Ég vek athygli á því að margar af þeim jörðum sem liggja að Þingvallavatni eru ýmist í eigu ríkis eða Reykjavíkurborgar. Ég tel því að til lengri framtíðar litið ætti að vera mögulegt að skapa þarna jafnvel mun stærri þjóðgarð en lagt er til með þessu frv. Gleymum því ekki að það er einstakt fyrir hverja höfuðborg að hafa svo að segja í túnfæti sínum gersemi, menningarlega og í náttúrufari, eins og þetta svæði er. Sem útivistarsvæði er það líka einstakt og ótrúlega fjölbreytt. Sennilega bjóða fá svæði á landinu upp á jafnólíkt og fjölbreytt landslag sem þar. Það er skoðun mín að við eigum ekki að láta staðar numið hér en horfa til þess að í framtíðinni, síðar á þessari öld, verði mörk þessa þjóðgarðs stækkuð. Ég vek eftirtekt á því að ýmislegt í frv. veitir stjórnvaldinu heimild til að sækja í þá átt.

Frú forseti. Það sem skiptir fyrst og fremst máli í þessu frv. er stækkunin. Þinghelgin, eins og hún er í dag, er um 40 ferkílómetrar, sem er ákaflega lítið ef við erum að tala um þjóðgarð. Með þessari stækkun er flatarmálið hins vegar sexfaldað. Þjóðgarðurinn mun þá verða fast að 240 ferkílómetrar og það er mikið fagnaðarefni.

[16:45]

Önnur breyting sem ég tel líka rétt að reifa felst í því að með frv. er tekinn af vafi um að forsrn. er það stjórnvald sem Þingvellir falla í reynd undir. Þetta kann í augum sumra að vera umdeilanlegt í ljósi þess að þeir sem samþykktu lögin á sínum tíma lögðu á það mikla áherslu að þinghelgin yrði undir stjórn Alþingis. Ég tel að í sögulegu tilliti hafi það verið ákaflega góð og farsæl tenging. Hins vegar hefur stjórnsýslunni undið fram með þeim hætti að hún er orðin flóknari en áður og nauðsynlegt að einhver hluti framkvæmdarvaldsins hafi stjórnsýslulega ábyrgð, m.a. með tilliti til kæra sem fram kunna að koma vegna ákvarðana Þingvallanefndar. Það er ljóst að til þess að tryggja rétt borgaranna þarf æðra stjórnvald að vera fyrir hendi og ég tel að það fari vel á því að það sé forsrn. Það hefur verið gott samstarf milli Þingvallanefndar og forsrn., sem hefur veitt nefndinni drjúgan stuðning við margvísleg verkefni sem hún hefur komið að og tekið ákvarðanir um. Ég er því þeirrar skoðunar að þetta sé rétt breyting og tel nauðsynlegt að það komi fram vegna þess að það kom fram í máli mínu fyrr á árum að ég teldi þetta vera álitamál.

Reynslan hefur hins vegar sýnt að þetta hefur verið góð breyting og í reynd er þarna verið að staðfesta ákveðið ferli sem þegar hefur átt sér stað.

Það sem hefur einkum leitt til deilna í tengslum við þjóðgarðinn eru byggingar sem hafa verið á áhrifasvæði þjóðgarðsins eða innan hans. Það kemur fram í frv. að þar eru heimildir fyrir Þingvallanefnd til þess að kaupa upp sumarbústaði. Sumarbústaðir innan þjóðgarðs hafa verið mörgum þyrnir í augum, m.a. þeim Þingvallanefndarmanni sem hér stendur. Ég teldi æskilegast að þjóðgarðurinn væri laus við það sem ég hef stundum kallað áþján sumarbústaðanna. Ég er hins vegar raunsær og tel að eins og verðþróun hefur verið á sumarbústöðum innan þjóðgarðsins sé það varla á skattborgarana leggjandi að Þingvallanefnd nýti þann forkaupsrétt sem hún hefur samkvæmt heimildum laga.

Hins vegar er það þannig að fyrir utan sumarbústaðina sem eru suðvestan Valhallar eru líka sex bústaðir í landi Gjábakka. Samkvæmt frv. verður Gjábakki órjúfanlegur hluti af þjóðgarðinum sjálfum. Þessir sex bústaðir komu til á síðustu öld og leiddu til mikilla deilna, og án þess að ég fullyrði neitt hefur mér jafnan fundist sem það sé nokkur samstaða um það í Þingvallanefnd að þeir væru óæskilegir. Ég tel að eitt af því sem Þingvallanefnd á að beita sér fyrir í framtíðinni sé að bústaðirnir verði keyptir upp þegar færi gefst.

Frú forseti. Ég hef verið þeirrar skoðunar að bæði Alþingi Íslendinga og forsrn. ættu að eiga sumarhýsi á Þingvöllum. Ég tel að það sé eðlilegt sökum þeirra miklu sögulegu tengsla sem Alþingi hefur haft við þennan stað. Því hef ég sagt það áður í þessum sal að ég tel að það eigi að vera hluti af þeirri framtíðarsýn sem við höfum fyrir Þingvelli að Alþingi Íslendinga eignist þar sumarhús sem það getur nýtt m.a. til þess að taka á móti gestum sem koma og sækja þingið heim. Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar að það ætti að festa kaup á bústað sem forsrh. hverju sinni gæti haft sem eins konar embættisbústað sinn, ef svo mætti að orði kveða. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að sá háttur sem nú er hafður á varðandi Þingvallastað, sem er eins konar móttökustaður fyrir forsrh., sé ekki heppilegur að mörgu leyti, og allra síst eins og heimurinn hefur þróast á síðustu missirum og árum. Þetta vil ég segja til að afstaða mín til þessa liggi alveg ljós fyrir. Þetta er eitt af því sem við eigum að hafa í huga.

Ég tel hins vegar að Þingvallastað ætti að nota með öðrum hætti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg prýðilegt eins og nú er að framkvæmdastjóri Þingvallanefndar, sem verður þjóðgarðsvörður að frv. samþykktu, hafi þar ákveðið athvarf. Ég tel að hinar burstir bæjarins eigi í framtíðinni að nýta með þeim hætti að þar eigi að bjóða fræðimönnum og hugsanlega listamönnum tímabundna íveru og helst þeim sem með einhverjum hætti eru að sinna sögu eða menningu Þingvalla. Ég tel að með þeim hætti sé verið að undirstrika enn frekar samband þjóðar og Þingvalla.

Það sem hefur stundum valdið okkur sem í Þingvallanefnd sitjum hugarangri, og mörgum öðrum, er ástand Valhallar. Valhöll er eitt af því sem hefur orðið órjúfanlegur partur af ímynd Þingvalla í huga þjóðarinnar. Sérhver Íslendingur fer til Þingvalla á ungum aldri og hluti af þeim minningum sem hann tekur strax með sér er þetta fallega hús. En eins og við sem erum kunnug á Þingvöllum vitum er það að hruni komið og ekkert fram undan annað en að leggja í gríðarlega dýrar endurbætur á því húsi eða einfaldlega láta það hverfa. Hvað á þá að koma í staðinn? Eins og við vitum hafa verið umræður um það á hinu háa Alþingi og hafa raddir talað hátt í þá veru að það ætti ekkert að byggja í staðinn. Ég tel hins vegar að það komi fyllilega til greina þegar eða ef að því kemur að Valhöll verði fjarlægð í núverandi mynd, að þar verði byggð lítil ráðstefnumiðstöð, hugsanlega í samvinnu einkaaðila og ríkisins þar sem ríkisstjórn getur haft eftir atvikum móttökur, þar sem hægt er að hafa ráðstefnur og hugsanlega mætti tengja það gistirými og veitingaaðstöðu. Þetta er eitt af því sem ég tel að þurfi að skoða en ljóst er hins vegar að næsta áratug þurfa menn að taka ákvarðanir um framtíð Valhallar. Mín skoðun er að hún sé tæpast á marga vetur setjandi eins og hún er og það sé ekki vel farið með fé skattborgaranna ef hið opinbera neyðist til þess að ráðast í viðgerðir á henni og endurbyggingu.

Þetta, frú forseti, eru í stórum dráttum þau aðalatriði sem ég vil nefna varðandi frv. Ég styð það heils hugar. Ég fagna alveg sérstaklega stækkuninni og fyrir mig skiptir það ákaflega miklu máli að sjá frv. og ég hef verið fylgjandi þessum breytingum mjög lengi. Ég tel enn fremur að þau viðhorf sem ég hef flutt varðandi byggingar innan marka þjóðgarðsins séu þættir sem menn eigi að skoða og ég vil hafa nefnt þá hér vegna þess að þetta er eitt af því sem ég vil beita mér fyrir innan Þingvallanefndar og sem alþingismaður.

Að lokum, frú forseti, vil ég segja það að Þingvallavatn er sem betur fer núna loksins, 40 árum eftir það mikla slys sem varð þegar bráðabirgðastíflan fyrir mynni Efra-Sogsins brast á þjóðhátíðardaginn 1959, að ná sér. Þingvallavatn er að blómstra sem aldrei fyrr. Allir fiskstofnar í vatninu eru að ná sér vel. Það er til marks um hversu einstakt vatnið er og til marks um það hve mörgum dásemdum það hefur yfir að ráða sem menn gera sér ekki alveg grein fyrir að í dag er sennilega hvergi hægt að finna nokkurt stöðuvatn sem er jafnframleiðið hvað fisk varðar. Það er sennilega ekkert stöðuvatn í heiminum þar sem jafnmikið aflast af silungi á hektara og þarna. Þetta hefur gerst á síðustu árum vegna þess að loksins eru þær sveiflur sem urðu í vatninu í kjölfar slyssins sem ég nefndi að hverfa.

En jafnframt hefur annað gerst. Menn hafa góðu heilli tekið upp baráttu fyrir því á síðasta einum og hálfa áratug að Landsvirkjun dragi úr því að nota Þingvallavatn sem miðlunarlón, en fáir gera sér grein fyrir, að Þingvallavatn, þessi perla okkar Íslendinga, er miðlunarlón fyrir Landsvirkjun. Eðli miðlunarlóns er að yfirborð þess sveiflast og það hafa verið miklar sveiflur á yfirborði Þingvallavatns í gegnum árin sem hafa leitt til þess að ýmiss konar dýr eins og kuðungar hafa unnvörpum dáið og tortíming þeirra hefur með þessum sveiflum leitt til þess að séríslenskir fiskar, eins og kuðungableikja, sem er einstakur fiskur og finnst ekki annars staðar, hafa átt í vök að verjast.

Á síðustu árum hefur tekist að fá Landsvirkjun til að draga úr þessum sveiflum og þá gerist það að allt blómstrar í vatninu, kuðungableikjan sem aldrei fyrr. Sveiflurnar, sem nú eru miklu minni en áður, hafa líka leitt til þess að straumar hafa breyst á gömlum hrygningarstöðum urriðans í neðri hluta Öxarár en líka hefur þetta leitt til þess að gamlir hrygningarstaðir, sem áður sukku ár hvert fyrir Nesjahrauni sem aftur leiddi til þess að urriðinn sem þar hrygndi kom ekki upp ungviði sínu og þeir stofnar dóu út, eru að ná sér upp aftur. Þetta er, frú forseti, fagnaðarefni og sýnir hvað er hægt að gera ef menn ætla sér að breyta því sem mennirnir hafa gert illa í náttúrunni.

En það er ekki nóg að gert, það þarf að stíga lengra í þessa átt. Það þarf að koma algjörlega í veg fyrir að Landsvirkjun noti Þingvallavatn sem miðlunarlón. Ég tel líka að eitt af því sem er óhjákvæmilegt að gera til þess að lyfta vatninu til fyrri vegs og virðingar sé að stjórnvöld beiti sér fyrir því að í framtíðinni verði stíflan rofin þar sem Efra-Sogið rann áður niður, þar sem útfall Þingvallavatns gekk áður frjálst í gegnum farveg Efra-Sogs niður í Úlfljótsvatn. Þarna varð til stórvaxnasti urriðastofn sem nokkurn tíma hefur þekkst. Þó að sá stofn hafi aldrei verið mældur báru menn gæfu til þess að mæla einungis einu sinni stærð og þyngd hrygningar\-urriða í Öxará, sem öllum sem til þekktu bar saman um að var þó minni en stofninn sem átti óðöl sín í Efra-Sogi. Það kom í ljós að hvergi í heiminum eru heimildir um urriðastofn sem var jafnstórvaxinn þegar hann var fullþroska. Meðalþyngd þeirra fiska var meiri en meðalþyngd hrygningarlaxa í öllum ám á Íslandi sem ég hef skoðað. Það sýnir hvers konar gripur þessi urriði var.

Ég tel, frú forseti, að þetta sé skuld sem við eigum lífríki Þingvallavatns að gjalda. Í dag mundi engum manni detta í hug, og væri sennilega ekki hægt í krafti þeirra laga sem nú liggja fyrir um mat á umhverfisáhrifum, að ráðast í þær framkvæmdir sem menn gerðu þá.

Ég ætla ekki að fara fram á að menn rífi stíflurnar í Soginu í burtu en ég tel að það sé mjög mikilvægt að menn grípi til ráða sem duga til þess að urriðinn nái sér aftur í Efra-Sogi. Ég sat einu sinni í ríkisstjórn sem lifði ekki alveg nógu lengi til þess að ná því fram, en á síðustu dögum hennar var þó að myndast samstaða um þetta. Vísa ég þá einkum til lofsverðra ummæla þáv. landbrh. og núv. forseta þingsins sem lýsti því yfir í þessum ræðustól að þetta ætti að gera. Og ég skora á hæstv. forsrh., dómsmrh. og umhvrh. að láta sér þessi orð Halldórs Blöndals að kenningu verða og taka undir baráttu okkar forseta þingsins fyrir þessari breytingu. Það er líka partur af því sem menn eru að gera með frv., að verja og vernda.