Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 17:03:07 (6067)

2004-04-05 17:03:07# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[17:03]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég tel hér vera gott mál á ferðinni sem þingmenn ættu að geta sameinast um, að öllu leyti vona ég. Þingvellir og umhverfið þar í kring er þjóðinni mjög verðmætt og liggur mjög vel við þéttustu byggð Íslands á suðvesturhorninu þannig að þetta er auðlind sem hver einasti Íslendingur hefur getað notað sér þótt hún liggi auðvitað betur við suðvesturkjarnanum og Suðurlandi heldur en stöðum sem fjarri liggja. Eftir sem áður býst ég við að flestallir Íslendingar komi á Þingvöll einhvern tímann á ævi sinni, og sem betur fer margir mjög oft, og njóti þeirrar sérstöku náttúru sem þar er til staðar, þeirrar sögu og staðhátta sem þar má kanna og horfa á.

Ég vil í upphafi máls míns gera grein fyrir bréfi sem við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sendum hæstv. forsrh. í dag. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Efni: Skipun Þingvallanefndar.

Komið er fram á Alþingi frumvarp til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Samkvæmt því er hið friðhelga land á Þingvöllum stækkað umtalsvert frá því sem nú er. Með stækkun þjóðgarðsins eykst vægi hans enn og kallar það á breytta stjórn og starfshætti, auk þess sem Þingvallanefnd er falið víðtækara verksvið. Engin breyting er hins vegar lögð til í frumvarpinu á skipun Þingvallanefndar sem er þannig háttað að kjörnir eru þrír alþingismenn hverju sinni í nefndina að loknum kosningum til Alþingis. Hefur svo verið allt frá stofnun þjóðgarðsins árið 1928 en þá voru þingflokkarnir aðeins þrír.

Undirritaðir formenn Frjálslynda flokksins og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lýsa almennt séð mjög jákvæðum viðhorfum til stækkunar hins friðhelga lands og þeirra markmiða sem sett eru um tilgang friðunarinnar, varðveislu þess lands sem fellur innan þjóðgarðsmarka. Það er hins vegar sameiginleg formleg ósk undirritaðra að ákvæði um skipun Þingvallanefndar verði breytt og fjölgað í nefndinni svo að allir þingflokkar eigi þar sína fulltrúa. Þess er hér með farið á leit að þessi ósk verði tekin til umfjöllunar í viðkomandi þingnefnd og vænst stuðnings fulltrúa annarra þingflokka við þá ósk.``

Undir þetta skrifa sá sem hér stendur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Það hefur verið nokkuð fróðlegt að fara í gegnum forsögu þessa máls og ég gerði það mér til gamans og fróðleiks að skoða þingtíðindi frá árinu 1928 þegar þetta mál var hér upprunalega til afgreiðslu. Þegar þeim þingtíðindum er flett, hæstv. forseti, kemur í ljós að mestöll umræðan fór fram um landnýtingu, um jarðarnýtinguna, um gróðurinn, um hag bænda af jörðum sínum, hvort beita mætti hraun og gróður í hrauni eða ekki, og hvort ákveðnar byggingar væru mönnum til sóma eða ekki, hvort ætti að fjarlægja þær fljótt eða síðar o.s.frv.

Eins og hv. þm. sjá er þetta þó nokkurt plagg sem ég hef með hér sem útskrift úr þessum þingtíðindum. Ég fullyrði eftir að hafa lesið þetta að stærsti hlutinn er um þennan ágreining manna, um landnytjar, hvert verð skuli koma fyrir og hvort kindur og geitur almennt eigi að fá að ganga á þessu landi. Þeir hafa þó að sumu leyti verið framsýnir því að þeir segja í ræðum sínum að það beri auðvitað að sjá til þess að ref og annan ófögnuð megi skjóta og viðhalda þannig lífríkinu sem er annað en við gerðum í Hornstrandafriðlandi um árið þar sem við höfum alið upp þau dýr með þó nokkrum árangri í því að útrýma mófugli víða um land.

Það sem ég ætlaði aðallega að vitna til og var það sem ég var að skoða var tilurð Þingvallanefndarinnar og hvernig menn hefðu lagt upp með það mál. Ég vil leyfa mér að vitna í þingtíðindi. Sá sem ég vitna í er þáverandi dómsmrh., Jónas Jónsson, en hann segir í dálki 2311 þegar verið er að tala um nefndina og þá sátt sem boðið sé upp á um það fyrirkomulag, með leyfi forseta:

,,Jeg get fullvissað hann [þ.e. þingmanninn sem hann var að vitna til, þ.e. 1. þm. Skagfirðinga] um, að það er ekki gert af vantrausti, hvorki á núverandi stj. nje hv. þm. (MG) [sem er Magnús Gunnarsson], þegar hann kemur í stj. næst. Það er gert vegna þess, að stjórnirnar hafa vanalega öðru að sinna [er þá verið að tala um ríkisstjórnir]. Til minningar um það, að Alþingi hefði ákveðið að gefa Þingvöllum sína helgi aftur, þykir rjett, að allir flokkar eigi fulltrúa í Þingvallanefnd, sem sje varanleg. Mjer þykir betur hlýða, að á Þingvöllum ráði ekki flokksstjórn, heldur þingið sjálft.``

Þetta var það skeleggasta sem ég fann í þeim þingtíðindum sem ég er með undir höndum. Það kann svo sem að leynast eitthvað einhvers staðar annars staðar. Þarna lýsti dómsmrh., sem flutti frv., því mjög skýrt yfir að hann teldi að það væri sómi þingsins og vilji að allir þingflokkar á Alþingi ættu fulltrúa í Þingvallanefnd og að það væri ekki flokksstjórn sem stjórnaði Þingvöllum, enda geri ég ekki ráð fyrir og hef ekki orðið þess var meðal manna í Þingvallanefnd eða þingmanna yfirleitt að mikill ágreiningur hafi verið um verndun Þingvalla. Ég á reyndar ekki von á því að svo verði í framtíðinni, að það verði mikill ágreiningur milli manna um það hvernig skuli standa að verndun Þingvalla fyrir komandi ár og aldir, fyrir fólkið í landinu.

Þegar þetta var sem ég vitnaði til, hæstv. forseti, hagaði svo til á Alþingi að Framsókn átti 19 þingmenn, Íhaldsflokkurinn 16 og jafnaðarmenn fimm. Síðan voru tveir utan flokka, einn úr Sjálfstæðisflokki minnir mig og einn utan flokka. Þannig var skipan þingsins þá og það var sem sagt niðurstaða manna þá að allir þingflokkar á Alþingi skyldu eiga fulltrúa í Þingvallanefnd.

Ég tel að ef það erindi sem við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon höfum sent frá okkur í dag um þetta atriði varðandi Þingvallanefnd verði skoðað, ætti í ljósi sögunnar kannski ekki að þurfa að valda miklum ágreiningi, enda eins og ég sagði áður býst ég ekki við því að meðal þingmanna ríki nokkur pólitískur ágreiningur um verndun og viðhald Þingvalla í sem óbreyttastri mynd. Ég geri fyrir mína parta ekki neinn ágreining um það að forsrh. skuli skv. 2. gr. fara með yfirstjórn þessara mála, ég held að það sé í sjálfu sér bara vel til fallið. Frv. að öðru leyti tel ég jafnframt vera til bóta og gott mál.

Ég vil hins vegar láta þess getið með tilliti til þess sem ég las upp úr eldri þingtíðindum um nýtingu jarða og eignir og eignaupptöku við stækkun friðlands að ég er ekki sérfræðingur í því hverjir eiga jarðir í kringum Þingvallavatn. Það plagar mig ekki mikið hverjir eiga þar sumarbústaði eða lönd, ég vona að allir sem þar eiga ítök njóti þeirra og fái notið þeirra áfram. Ég sé ekki sérstakan tilgang í því að vera að skikka menn til að rífa húseignir sínar ef þær eru fallega umgengnar og eigendum til sóma, hvort sem þeir eiga þær innan eða utan þjóðgarðs. En það hlýtur að verða að gera kröfu til þess að húseignir innan friðlands séu nokkuð vel hirtar og landi og þjóð til sóma.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta mál sem hér er verið að ræða, stækkun þjóðgarðsins á Þingvöllum, sé þjóðþrifamál og vonandi að við berum gæfu til þess að klára það svo fljótt sem nauðsyn ber til og að um það ríki þá næg og mikil sátt. Ég tel ekki að um verndun Þingvalla og umhverfis þeirra geti staðið pólitískur ágreiningur milli þjóðkjörinna fulltrúa.