Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 17:14:08 (6068)

2004-04-05 17:14:08# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[17:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir það erindi sem hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, 5. þm. Norðvest., flutti hér fyrir hönd okkar beggja um að samsetningu Þingvallanefndar verði, þótt seint sé liggur mér við að segja, nú þannig breytt að hin upprunalega hugmynd um að í henni sitji fulltrúar allra þingflokka verði aftur virt. Ég hygg að sú tilvitnun sem hv. þm. fór með í þáverandi dómsmrh., Jónas frá Hriflu, taki af allan vafa um það hvernig þetta var hugsað á sínum tíma, enda ekki tilviljun að nefndarmenn voru þá þrír og þrír flokkar áttu fulltrúa á þingi.

[17:15]

Ég held að það sé í samræmi við þingræðishefðina og þá skipan að Alþingi fari með yfirstjórn mála að svona sé að verki staðið og það er líka til að undirstrika þá samstöðu og þá sátt sem á að ríkja um meðferð mála í þessum þjóðarhelgidómi. Ég leyfi mér að trúa því þangað til annað kemur í ljós að undir þessa sanngjörnu kröfu verði tekið og málinu breytt á þann veg og það njóti stuðnings bæði málflytjenda, hæstv. forsrh., fulltrúa annarra þingflokka og þingmanna almennt.

Ég vil einnig segja um málið að alltaf má velta vöngum yfir því hversu hátt eigi að reiða til höggs eða af hversu miklum metnaði menn eigi að ganga fram ef farið er í breytingar á annað borð á því fyrirkomulagi sem þarna hefur ríkt tiltölulega óbreytt býsna lengi. Það er enginn vafi á því að sú stækkun þjóðgarðsins sem hér er lögð til er geysimikilvægur áfangi til þess að bæði tryggja betur vernd svæðisins og til að stækka það svæði sem er sérstaklega tekið frá og friðlýst til útivistar og til að njóta sem umgjarðar um sjálfan þinghelgidóminn, sem er Lögberg og þingvellirnir og svæðið þar hið næsta.

Þessi stækkun þjóðgarðsins úr um 40 ferkílómetrum í tæplega 240 ferkílómetra er gríðarmikil og má ljóst vera að svæðið breytist um margt, breytir um eðli að nokkru leyti frá því að vera fyrst og fremst verndarsvæði utan um sjálfa þinghelgina í að vera allstór þjóðgarður eða verndarsvæði í næsta nágrenni höfuðborgarinnar. Um leið breytist talsvert verksvið þeirra sem þarna fara með mál því að slepptu svæðinu umhverfis þinghelgidóminn verður meðferð mála þarna væntanlega meira og minna í samræmi við það sem almennt gerist um þjóðgarða eða verndarsvæði af þessum toga. Það hlýtur líka að koma til álita þegar talið berst að stjórnskipulagi og fyrirkomulagi á þessu svæði að hvaða leyti sömu rök standa áfram fyrir því að skipa málum með þessum sérstaka hætti og að hvaða leyti er í raun orðið um að ræða forvöltun og verkstjórn á friðlýstu svæði eða verndarsvæði sem á flest sameiginlegt með öðrum slíkum annars staðar í landinu.

Ég hafði í sjálfu sér, herra forseti, allt eins átt von á því að þegar farið yrði af stað á annað borð yrði jafnvel um enn meiri stækkun þjóðgarðsins að ræða og var ég þá sérstaklega með í huga vatnsverndina og landslags- og jarðfræðivernd vegna þess að þær gersemar sem að svæðinu liggja eða því tengjast, svæðið norður og norðaustur af þingvöllunum gefur fullt tilefni til að þjóðgarðsmörkin eða verndarsvæðismörk séu færð mun lengra inn til landsins en hér er ákveðið að gera. Nú er að vísu boðað að í vændum sé sérstakt frv. sem lýtur að verndun Þingvallavatns og vatnasviðsins eða vatnasvæðisins sem því tengist og er það vel og þá hljóta menn að ætla sér að hafa talsvert stærra svæði undir en nákvæmlega hér er uppteiknað.

Um vinnubrögðin og undirbúning málsins er ég svo sem ekki til frásagnar um, enda málið á annarra höndum. Maður hefur einhvern veginn í gegnum tíðina öðlast þá tilfinningu að virðuleg Þingvallanefnd sé ákaflega forframaður klúbbur og virðulegur og í þeim selskap sitja helst ekki minna en óbreyttir ráðherrar a.m.k. og formenn flokka (Gripið fram í: Fyrrverandi ráðherrar.) og fyrrverandi ráðherrar. Það ríkir nokkur stjórnfesta í nefndinni og hefur haft tilhneigingu til að gera og er það vel. Ég held þó að það megi velta vöngum yfir því hvort menn hafi kannski á köflum ekki náð að leysa málin með alveg nógu farsælum hætti og mér finnst ljóður á framkomu þessa annars ágæta frv. að það skuli samtímis rísa upp ágreiningur við eitt af þeim sveitarfélögum sem í hlut á, sem sagt Bláskógabyggð. Mér liggur við að kalla það klaufalegt að ekki skuli vera betra samkomulag við viðkomandi sveitarfélag um málsmeðferðina þegar málið birtist á borðum þingmanna. Að ekki skuli vera samkomulag áður en frv. er lagt fram í sjónmáli, sem teiknar upp útlínur að hinum nýja og stækkaða þjóðgarði, um hluti eins og Gjábakkaveg eða vegtengingu inn á svæðið er ekki eins og æskilegast hefði verið. Vonandi er hægt að leysa úr þeim hlutum. Að sjálfsögðu er ekki hægt að lofa því fyrir fram að samkomulag takist um alla hluti, e.t.v. verður að lokum að höggva á einhverja hnúta eða taka af skarið með einhver ágreiningsmál sem uppi eru, en æskilegast væri að um þetta ríkti sem allra mestur og bestur friður, bæði nú þegar málið er til umfjöllunar á Alþingi og ekki síður í framhaldinu þegar þetta er komið til framkvæmda.

Um stjórnskipulag mála ætla ég ekki að hafa mörg orð. Ég vísa til þess sem ég áður sagði að með því að þjóðgarðurinn stækkar jafnmikið og raun ber vitni er ljóst að margt af því sem verður á könnu Þingvallanefndar verður mjög sambærilegt við það sem stjórnendur í þjóðgörðum annars staðar í landinu eða á verndarsvæðum annars staðar hafa við að glíma og verksvið Þingvallanefndar er fært talsvert út að þessu leyti. Reyndar verður Þingvallanefnd hálfgerð ríkisstjórn með lögsögu á öllum sviðum, samanber t.d. ákvæði 6. gr. frv. Það jaðrar við að vera hliðstætt við hið víðtæka valdsvið eða hlutverk utanrrh. á svokölluðum verndarsvæðum, en utanrrh. er ráðherra allra málaflokka eins og kunnugt er, t.d. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, og fer þar með dómsmál, lögreglumál og hvaðeina. Þannig fær Þingvallanefnd mjög viðamikið hlutverk, getur til að mynda sett í reglugerð ákvæði um gestagjöld innan þjóðgarðsins og væri athyglisvert að fá upplýsingar um hvaða pólitík er þar fyrirhuguð. Er útfært af hálfu nefndarinnar hvernig hún mun fara með þessar heimildir? Verður um að ræða almenna gjaldtöku í garðinn sem maður á erfitt með að sjá fyrir sér eða hvernig verður slíku fyrir komið og hvernig verður það afmarkað? Þingvallanefnd getur jafnvel sett tímabundnar reglur um umferð innan þjóðgarðsins, verður hálfgerð umferðarlögregla á svæðinu, stjórnar veiðum dýra og fugla innan garðsins, setur reglur um meðferð spilliefna og frárennslis og þar fram eftir götunum.

Auðvitað má velta fyrir sér hvort fær hefði verið sú leið að sá þáttur málsins sem snýr að yfirstjórn þingsins, Alþingis, á málefnum vegna tengslanna við þingstaðinn forna og söguna hefði verið fyrir komið með sérstökum hætti, en dagsdagleg stjórnun mála í þjóðgarðinum hvað varðar samskipti við almenning, t.d. um útivist á svæðinu, hefði verið fyrir komið með einhverjum venjubundnum hætti þannig að menn hefðu deilt að einhverju leyti með sér verkum. Það má líka velta því fyrir sér hvort ekki væri ástæða til að skoða þær hræringar aðrar sem uppi eru í málefnum þjóðgarða, en eins og kunnugt er er heilmikið að gerast í þeim efnum, og jafnvel rætt um að núverandi þjóðgarðar, tveir af fjórum, þ.e. þjóðgarðurinn í Skaftafelli og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum nyrðra renni saman í einn og um Vatnajökulsþjóðgarð og jafnvel stóran miðhálendisþjóðgarð sem að endingu teygir sig frá strönd til strandar verði sett sérlög. Stendur þá eftir undir venjulegum náttúruverndarlögum aðeins einn af fjórum þjóðgörðum í landinu, þ.e. hinn nýstofnaði þjóðgarður kringum Snæfellsjökul þar sem Þingvallanefnd fer með þennan, og er það orðið nokkuð sérkennilegt ef sú yrði niðurstaðan.

Það kann því að vera, virðulegi forseti, að ástæða gæti verið til að fara yfir öll þessi mál í heild sinni. Í raun og veru held ég að það sé þarft að umhvn. Alþingis, sem væntanlega fær málið til umfjöllunar eða þær þingnefndir sem um það kunna að fjalla sameiginlega --- nú heyrði ég ekki hvort hæstv. forsrh. lagði til nefnd (Gripið fram í.) það er allshn. --- Að mínu mati er í öllu falli sjálfgefið að málið gangi til umhvn. til álitsgjafar varðandi þann þátt málsins þannig að þingnefndirnar fari e.t.v. að einhverju leyti sameiginlega yfir þessa hluti og gefi sér þann tíma sem þarf til að skoða málin vandlega. Ég sé ekki neina sérstaka nauðsyn til þess að þetta mál, þó þarft sé og gott, þurfi endilega að verða að lögum á þessu vorþingi ef efni máls kalla á að það verði skoðað betur í samhengi við annað.

Ég tek líka undir það sem hér hefur verið nefnt af ræðumönnum á undan mér að það er ákaflega mikilvægt að í framhaldi af þessu komi frv. sem á að taka á frekari vernd Þingvallavatns og vatnasviðsins sem væntanlegt er frá hæstv. umhvrh. og hér kemur fram.

Að síðustu vil ég segja það, virðulegur forseti, að það er meginafstaða mín til meðferðar mála á þessum helga stað, sem eru Þingvellir, Lögberg, Almannagjá og næsta nágrenni, að það beri að varðveita þetta svæði sem allra ósnortnast í þeirri mynd sem það er í dag og hefur af náttúrunnar hendi verið um aldir og árþúsundir. Og þó mennirnir hafi auðvitað sett á það visst mark og gert þær breytingar sem ég geri ekki ráð fyrir að neinir hafi áhuga á að gera afturhverfar eins og flutning Öxarár á sínum tíma, held ég að menn eigi að láta þar við sitja og reyna sem minnst að vera með tilburði uppi til þess að betrumbæta það náttúrunnar meistaraverk sem Þingvellir eru. Ég er með öðrum orðum tiltölulega andvígur hvers kyns mannvirkjagerð eða umróti af því tagi á þessu svæði. Ég tel að það eigi að halda þar öllu slíku algerlega í lágmarki og það eigi eingöngu að miða að því að greiða fyrir umferð fótgangandi manna og eftir atvikum akandi eftir því sem þörf er inn að svæðinu og það eigi frekar að láta byggingar hverfa þegar þeirra tími er kominn en að reisa aðrar nýjar eða fjölga þeim. Út af fyrir sig held ég að að mati þjóðarinnar fari vel á því að á Þingvöllum standi lítil kirkja og einn fallegur bær og ég er ekki að gera neinar tillögur um að því verði breytt, a.m.k. eins og mál standa, en mikið meira þarf og á að mínu mati ekki að vera þar. Samkomur eiga að fara þar fram undir berum himni enda þekki ég enga arkitekta eða byggingarmenn sem ég hef trú á að geti betrumbætt það náttúrunnar meistaraverk sem Þingvellir eru og það fer líka vel saman við söguna og þá menningararfleifð sem þingfundir í heyranda hljóði undir berum himni bera með sér sem fram fóru þarna til forna.

Reyndar get ég alveg upplýst það, úr því að ég er kominn út í þessa sálma á annað borð, að ég hef oft látið mér detta í hug þá rómantík að Alþingi væri sett á Þingvöllum og þingsetningin færi fram undir berum himni síðsumars eða jafnvel á hinum forna tíma þegar þing var kvatt til funda í lok júnímánaðar, ef ég man rétt, og síðan mætti fresta fundunum og taka til að nýju þegar efni stæðu til með haustinu.

[17:30]

Svipað fyrirkomulag hafa frændur okkar Færeyingar. Þeir setja þing sitt með mjög hátíðlegum hætti á þjóðhátíð sinni, Ólafsvökunni, og það starfar síðan ekki mikið fyrr en seinna á árinu. Þannig er þingsetningin sjálf gerð táknræn og hátíðleg og auðvitað mundi það verða með því að hún færi fram á Þingvöllum. Út af fyrir sig hefur það líka verið og er gott fyrirkomulag að minnast stærstu atburða í sögu þjóðarinnar með því að kveðja þing saman til funda á Þingvöllum og hefur verið gert, þó að sumir séu ekki svo heppnir að upplifa slíka atburði á þingferli sínum, enda líða oft áratugir á milli slíkra hátíðahalda eins og kunnugt er. En í öllu falli finnst mér að hafa eigi í huga með hvaða hætti þetta verði best tengt saman, þ.e. sagan að þessu leyti og störf þjóðþingsins á hverjum tíma. Og það er kannski best gert með því að leyfa staðnum að njóta sín eins og hann er, eins og hann kemur fyrir frá náttúrunnar hendi í sem allra ríkustum mæli.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti. Ég held að engin ástæða sé til að ætla neitt annað en að mjög mikil og góð sátt geti orðið um stækkun Þingvallaþjóðgarðs þó að auðvitað séu þarna ýmis mál sem ástæða er til að fara ofan í saumana á.