Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 17:33:05 (6070)

2004-04-05 17:33:05# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[17:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vona að ekki beri að túlka spurningu hv. þm. þannig að hann sé á grundvelli þingræðis- og lýðræðishugsunar andvígur því fyrirkomulagi að tryggt sé að allir þingflokkar eigi fulltrúa í Þingvallanefnd. Ég vona svo sannarlega að ekki beri að túlka spurningar hv. þm., sem virtust fela í sér að hann sæi ákveðin tormerki á því að hlutum yrði þannig fyrir komið, sem efnislega andstöðu við það og vil ekki trúa slíku fyrr en ég tek á því. Fyrir mér er það fyrst og fremst tæknilegt úrlausnarefni sem er þá auðleyst hvernig því er fyrir komið, ef menn hafa af því áhyggjur yfir höfuð að nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka sé ekki fullfær um að leysa úr málum af þessu tagi. Fyrir mér undirstrikar þetta einmitt að hér er það ekki spurning um meiri hluta eða minni hluta, stjórnarflokk og stjórnarandstöðu, heldur er það Alþingi sjálft sem stofnun og þingflokkar á Alþingi sem fara með þetta hlutverk. Hafi menn áhyggjur af því að stundum komi upp slétt tala, má ganga frá því þannig að atkvæði formanns ráði úrslitum og er gjarnan gert ef svo ber undir. Auðvitað má líka hugsa sér að sett sé föst tala á nefndina, en þó þannig að jafnan skuli sitja í nefndinni t.d. sjö, meðan það dugir a.m.k. ef þingflokkar verði ekki fleiri, en ganga síðan frá því að jafnan skuli þá vera að lágmarki einn frá hverjum þingflokki.

Það eru ýmsar útfærslur færar, held ég, í þeim efnum ef viljinn er til staðar, ef menn hafa hug á því og vilja til þess að nálgast málið þannig að það sé sanngirnismál, réttlætismál og í samræmi við þingræðis- og lýðræðis- og fjölræðishefðir að um stór táknræn viðfangsefni af þessu tagi sem tengjast hvorki meira né minna en sjálfu Alþingi og stjórnskipun landsins sé reynt að hafa þverpólitíska og mikla samstöðu á hverjum tíma.

Höfundar málsins á sínum tíma, 1928, gerðu greinilega ekki ráð fyrir því að um hlutfallskosningu yrði að ræða, samanber þau ummæli dómsmrh. að fulltrúar allra þingflokka skyldu eiga sæti í nefndinni. (Forseti hringir.) En þá stóð þannig á að einn þeirra var aðeins með fimm þingmenn og hafði ekki styrk til að ná d'Hondt-kosningu fulltrúa í nefndina, en fékk það engu að síður.