Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 17:36:56 (6072)

2004-04-05 17:36:56# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[17:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tók það bara fram að ég vonaði að ekki bæri að túlka þetta sem andstöðu hv. þm. Ég hlýt að mega leyfa mér að bera þá von í brjósti. En hv. þm. spurði út frá því sem mátti ætla að væru að hans mati einhver tæknileg vandamál varðandi það að koma þessu fyrirkomulagi á. Ég held að í þessu tilviki þurfi menn náttúrlega ekki frekar en oft endranær að velja þann kost endilega að festa sig algerlega og rígbinda sig í hlutfallslegan þingstyrk flokka, enda er mjög víða frá því vikið. Nærtækasta dæmið er t.d. réttur manna hér til máls og tillöguflutnings, þátttaka í útvarpsumræðum og annað í þeim dúr, svo dæmi sé tekið. Þá er hið gagnstæða valið að viðurkenna menn sem fulltrúa flokka, fulltrúa sjónarmiða. Og á grundvelli þingræðis og fjölræðis, fjölþátta stjórnmála, er gengið út frá því að mikilvægt sé að öll sjónarmið komi fram, séu til staðar og allir hafi aðstæður til að hafa áhrif á gang mála.

Ég held að lýðræðið eigi ekki síður mikið undir því en hinu að menn séu rígbundnir í stærðfræðina og hlutfallafræðina. Sem betur fer er þetta víða endurspeglað í stjórnskipan okkar, þó vissulega verði að viðurkenna að gætt hafi ákveðinna tilhneiginga á allra síðustu árum, t.d. hér í þinginu, til að færa þetta yfir í hinn farveginn eins og hv. þm. með vangaveltum sínum um að í nefndinni þurfi þá að vera minnst 11 til þess að allir þingflokkar hafi hlutfallslegan þingstyrk til að eiga þar sæti.

Ég held að frjálsa skoðanamyndun, lýðræði og þingræði í landinu sé ekki síður mikilvægt að tryggja, að öll sjónarmið fái að njóta sín og heyrast og vera til staðar þar sem mikilvægt er að þau séu það. Mér finnst það eiga við um mál af þessu tagi sem menn eiga að leggja sig fram um að láta ríkja sem víðtækasta og þverpólitískasta sátt um.