Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 17:39:19 (6073)

2004-04-05 17:39:19# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[17:39]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna framkomnu frv. til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum og fyrirhugaða stækkun hans. Margt af því sem mér liggur á hjarta varðandi þetta mál hefur komið fram í umræðunni nú þegar og ekki þá síst í ræðu hv. síðasta ræðumanns, Steingríms J. Sigfússonar.

Mig langar engu að síður að fara yfir nokkrar hugleiðingar mínar varðandi stjórnsýslu og fyrirkomulag hennar og umsjón þjóðgarðsins. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að hann í stækkaðri mynd heyri undir Þingvallanefnd eins og sá þjóðgarður sem við nú búum við gerir og hefur gert. Ég vil aðeins velta því fyrir mér hvort ekki beri að hugleiða mögulegar breytingar á þessu fyrirkomulagi. Mér finnst í sjálfu sér alveg eðlilegt þó ekki væri nema sögunnar og hefðarinnar vegna að Þingvallanefnd haldi áfram hlutverki sínu hvað varðar stjórnsýslu á svæðinu sem getur afmarkast af þinghelginni, en ég set nokkur spurningarmerki við völd Þingvallanefndar yfir hinum stækkaða þjóðgarði sem greinilega hefur ekki eingöngu sögulegt eða menningarsögulegt gildi heldur líka náttúrufarslegt. En í upphafi greinargerðar með frv. segir, með leyfi forseta:

,,Frá því að lögin voru sett [þ.e. 1928] hafa öll viðhorf til náttúruverndar gjörbreyst auk þess sem umferð um þjóðgarðinn og næsta nágrenni hans er miklu meiri en áður.``

Jú, frú forseti, mikið rétt. Öll sjónarmið og viðhorf til náttúruverndar hafa breyst mikið á seinni árum og ég sé ekki annað þegar rýnt er í frv. en að verið sé að gera tillögu um stækkun þjóðgarðsins vegna þess að vernda þurfi hið upprunalega náttúrufar svæðisins og auka vægi þjóðgarðsins með því að taka ákveðin landsvæði eða áberandi einingar þessa svæðis undir vernd þjóðgarðsins. Ég velti þessu fyrir mér kannski sérstaklega í framhaldi af þeirri umræðu sem átti sér stað í þingsölum fyrir skemmstu varðandi væntanlegan Vatnajökulsþjóðgarð, sem mögulega verður á endanum þjóðgarður frá strönd til strandar, þ.e. frá Öxarfirði í norðri og til suðurstrandarinnar í suðri, að tillögur um hann gætu mögulega falið í sér að sérstök nefnd eða sérstök stofnun komi til með að fjalla um málefni hans. Mér þykir þá farið að skjóta nokkuð skökku við ef reyndin á að verða sú að stofnunin sem við höfum hér sameiginlega sett á laggirnar til þess að annast umhverfismál okkar öðrum stofnunum fremur, Umhverfisstofnun, skuli eingöngu eiga að hafa umsýslu með einum þjóðgarði, þ.e. þjóðgarðinum sem stofnaður var umhverfis Snæfellsjökul. Ég held að í umfjöllun um þetta mál verðum við að spyrja okkur þessara spurninga og athuga hvort hér sé eins vel á málum haldið og mögulegt er.

Ég hef sjálf ekki myndað mér neina endanlega skoðun í málinu, frú forseti, en mér finnst þessar hugleiðingar varðandi stjórnsýslu og skörun hlutverka vera fullgildar í þessari umræðu. Í því sambandi vil ég líka nefna, af því að hæstv. forsrh. vísar málinu beint til allshn., að ég tel sjálfsagt að umhvn. þingsins fái það líka til skoðunar og geri svo sem ráð fyrir að það verði auðsótt að formaður allshn. eða allshn. geti mögulega vísað ákveðnum þætti málsins til umhvn., því hér er líka eins og ég segi um verndun á náttúrufarslegum forsendum að ræða.

Til gamans vil ég geta þess að þó að frumvarpshöfundar virðist að ákveðnu leyti hafa haft eldri lög, þ.e. núgildandi lög, til hliðsjónar við samningu frv. þá sakna ég ákveðinna þátta í þeim efnum sem eru til staðar í núgildandi lögum. Málfarið á hinum eldri er afar fallegt og blæbrigðaríkt og ég vil til gamans lesa hér upp 4. gr. núgildandi laga sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.``

Ég verð að segja að blærinn á þessari grein er slíkur að ég tel að það hefði verið mjög gaman ef hans hefði gætt áfram í hinu nýja lagafrumvarpi. En það sem ég vil gera sérstaka athugasemd við er að orðið friðlýst land ,,hið friðlýsta land`` er alveg komið út úr þeim frumvarpstexta sem liggur fyrir okkur. Ég veit ekki hvaða fælni það er hjá stjórnvöldun en það virðist gæta ákveðinnar fælni og sú fælni hefur verið viðurkennd í orðum hæstv. umhvrh. að hugtakið ,,friðlýstur`` sé orðið erfitt í meðförum í stjórnsýslunni.

[17:45]

Ég er ekki viss um að við á löggjafarsamkundunni þurfum að ... (Gripið fram í.) ,,friðlýstur helgistaður`` bendir hæstv. forsrh. mér á að standi hér. Ég veit það. En það er talað um helgistað, (Forsrh.: Friðlýstan helgistað.) friðlýstan helgistað og það er talað um hið friðhelga land og að mörk hins friðhelga lands skuli vera hin og þessi. Það er talað um að ákveðnir hlutir eigi að samrýmast markmiðum friðunarinnar. En ef undan er skilin þessi fyrsta setning í 1. gr. þá er hugtakið friðlýstur farið út úr lagatextanum. Það er ég að gera athugasemd við. Ég tel það óþarfa hjá okkur á löggjafarsamkundunni að beygja okkur undir það að hugtakið friðlýstur sé orðið eitthvað erfitt í meðförum. Það er að mínu viti fullkomlega gilt hugtak. Það er í náttúruverndarlögunum. Það er í núgildandi lögum um friðun Þingvalla og mér finnst svona gæta ákveðinnar undanlátssemi í þessum efnum, þ.e. að menn hafi lent í vandræðum með að túlka friðlýsingu og þar af leiðandi sé verið að hreinsa þetta út úr lagatexta.

Ég get tekið undir það, frú forseti, að ég hefði og eflaust hefðum við öll kosið að þetta frv. hefði verið lagt fram í fullkominni sátt þeirra sem næst standa. Það er ekki fallegt til afspurnar að stjórnvöld skuli þurfa að leggja þetta frv. fram ofan í mótmæli sveitarstjórnar í Bláskógabyggð. Bæði blöð og ljósvakamiðlar eru uppfullir af fréttum um ágreining á milli stjórnvalda og sveitarstjórnarmanna í þessum málum. Ég tel að stjórnvöld eigi að ganga á undan með góðu fordæmi í svona löguðu. Menn vita það af reynslunni --- það nægir að nefna reynsluna úr Mývatnssveitinni í Þingeyjarsýslu vegna laga um vernd Mývatns og Laxársvæðisins --- að mál af svona tagi eru best fram sett ef það er hægt að gera í fullri sátt og í samráði við heimamenn sem hafa á síðustu missirum viljað tjá sig mjög um friðlýsingar stjórnvalda. Ég tel að stjórnvöld hefðu getað afstýrt þeim árekstrum sem hér virðist hafa komið til ef einungis hefði verið hugað að þeim málum og svolítil stjórnkænska sýnd í þeim efnum, ef menn hefðu talað saman og undirbúið þetta mál betur en greinilega hefur verið gert í heimabyggð.

Sjálf hef ég verið afar hlynnt því að Þingvellir fái sæti á heimsminjaskrá UNESCO og hef úr þessum ræðustóli lýst fullum stuðningi við þau áform. Ég tel að þetta frv. eða grunnhugmyndir þess komi til með að styrkja þær hugmyndir sem liggja að baki þeirri umsókn. Ég fagna því sem fram kemur í Morgunblaðinu í dag frekar en í gær þar sem hæstv. dómsmrh., formaður Þingvallanefndar, Björn Bjarnason, lýsir því yfir að nú muni að vænta frétta varðandi það mál í byrjun júlí nk. Ég vona því sannarlega að við eigum í vændum jákvæðar fréttir af þeim vettvangi og að áður en árið er liðið getum við fagnað því að Þingvellir hljóti þann sess sem við öll höfum vonað að þeir geti hlotið.

Ég get tekið undir orð sem hér hafa fallið um að auðvitað hefði verið eðlilegt ef hitt frv., um vatnsvernd Þingvallavatns, hefði legið hér frammi samhliða þessu frv. því þessi mál tengjast afskaplega mikið og umfjöllunin um þau ætti að njóta þess að þau gætu verið til umfjöllunar í nefndum þingsins á sama tíma, enda, eins og fram kom í máli hæstv. umhvrh. áðan, er vatnsverndarfrv. þess eðlis að það lýtur að vernd stærstu grunnvatnsauðlindar Íslands. Ég tel eðlilegt að þessi frv. hefðu getað legið fyrir á sama tíma í þinginu.

Frú forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að grunnhugmyndin í frv. er mér mjög að skapi. Þingvellir eru, eins og við öll vitum, slík náttúruperla að Þingvellir þurfa að njóta þeirrar verndar sem hér er um getið og um fjallað í þessu frv. Þessar hugleiðingar mínar eru kannski tæknilegs eðlis og varða stjórnsýsluna og fyrirkomulag umsjónar þjóðgarðsins. Ég tel að nefndir þingsins komi til með að fjalla um það á yfirgripsmikinn hátt. Ég sé því ekki betur en hér sé í uppsiglingu spennandi vinna hjá nefndunum sem getur svo sem átt eftir að breyta einhverjum atriðum í frv. En í grunninn er hugmyndafræðin sem hér liggur að baki mér mjög að skapi.