Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 18:10:04 (6078)

2004-04-05 18:10:04# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[18:10]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Það kemur í ljós að hvað sem tilfinningu líður lítur forsrh. svo á að einhver fasteign ríkisins við Arnarhól sé í raun af sama tagi og Þingvellir eða forngripir okkar. Það var einmitt það sem ég gerði að umfjöllunarefni í ræðu minni. Okkur vantar þá skilgreiningu í stjórnarskrána að þetta sé ekki svo. Þingvelli ætlum við aldrei að selja og ekki bara við sem eigum að fá að ráða því heldur berum við þar ábyrgð gagnvart afkomendum okkar á sama hátt og áum okkar. Það er þess vegna sem við þurfum í stjórnarskránni að fá fram kláran mun á því hvað þjóðin á, með ríkið að handhafa og hvað ríkið á, sem lögpersóna, eins og hver annar og getur selt, veðsett eða gert við sem það vill.

Ég vek á þessu athygli og mér sýnist að þetta vandamál sé til staðar þar sem forsrh. og hans menn raunar, í þeirri deilu sem ég minntist á áðan um eignarréttinn, telja ekki til nema eina tegund af eignarrétti, einkaeignarrétt og ekki til neitt annað, ekki til neinn eignarrétt sem þjóðin sameinast um eða einhvers konar forsjá, að enginn munur sé á Þingvöllum og hosílói á Stjórnaráðsblettinum, svo að dæmi sé tekið.