Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 18:11:48 (6079)

2004-04-05 18:11:48# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[18:11]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðurnar og þann stuðning sem frv. hefur fengið í umræðunum. Ég þakka hæstv. forsrh. sérstaklega fyrir að flytja frumvarpið að tilmælum okkar Þingvallanefndarmanna og ganga til verks eins og raun ber vitni við gerð frv. og taka af skarið um mörg álitamál eins og nauðsynlegt er þegar litið er til gömlu laganna frá 1928 og skapa nýja lagaumgjörð um starfsemi Þingvallanefndar og það starf sem bíður okkar sem viljum vernda Þingvelli og efla staðinn. Það gefast betri og ný tækifæri til þess nú þegar þjóðgarðurinn stækkar á þann veg sem frv. mælir fyrir um.

Að mínu mati er mjög mikilvægt að þingið afgreiði þetta mál á vordögum. Það mun styrkja okkur í stöðunni gagnvart UNESCO þegar kemur að því að taka lokaákvörðun um það hvort Þingvellir komast á UNESCO-skrána. Það verður gert á fundi í byrjun júlí. Við munum að lögin frá 1928 voru sett í aðdraganda Alþingishátíðarinnar 1930. Menn höfðu þar, m.a. af því tilefni, það hátíðlega orðalag í lögunum sem hér hefur verið vitnað til til að minna Íslendinga á það hve mikilvægt væri að halda merki Þingvalla hátt á loft. Síðan var gengið til þess, eins og við vitum, að efna til mikillar hátíðar á Þingvöllum árið 1930 til að minnast þúsund ára afmælis Alþingis. Allt er þetta nátengt og skiptir miklu máli fyrir sögu þjóðar okkar og það skref sem við stigum með því að ríkisstjórnin ákvað að Þingvellir yrðu fyrsti staðurinn sem Íslendingar mundu nefna til á heimsminjaskrá UNESCO. Það er staðfesting á því að okkur er annt um þennan stað og viljum veg hans sem mestan. Breytingar af þessu tagi munu styrkja stöðu okkar sem vinnum að því að Þingvellir komist á skrána, þ.e. að frv. verði samþykkt nú á vorþingi.

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að flytja málið þannig að okkur gefist færi á að staðfesta með þeim hætti stöðu Þingvalla og umhverfi og stjórnsýslu þar á þann veg að engu muni haggað. Staðurinn mun áfram verða í þeirri einstæðu stöðu sem hann hefur, verður í forsjá Alþingis á þann veg sem við komum okkur saman um í frekari meðferð í þinginu.

Ég vil aðeins að gefnu tilefni fara yfir atriði sem hér hafa verið nefnd. Hér var m.a. vísað til 6. gr. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi 6. gr. og ræddi um gestagjöld. Eins og menn sjá þegar þeir lesa greinargerð með 6. gr. þá segir þar, með leyfi forseta:

,,Þarna er eingöngu gert ráð fyrir að um þjónustugjöld sé að ræða, svo sem fyrir tjaldstæði, leiðsögn og aðgang að ákveðnum stöðum, og þessi gjöld má því ekki ákveða hærri en svo að þau mæti kostnaði við hina veittu þjónustu og þá aðstöðu sem komið hefur verið upp til að veita hana. Heimild til töku gestagjalda á Þingvöllum er í gildandi lögum um friðun Þingvalla ... en sú gjaldtökuheimild er þó rýmri en hér er lagt til. Gert er ráð fyrir að leita þurfi staðfestingar forsætisráðherra á reglugerðinni í samræmi við hefðbundna skipan eftirlits innan stjórnsýslunnar.``

Ég tel að hér sé einnig litið til þess að færa löggjöfina í það horf sem við teljum best þegar hugað er að gjaldtöku af þessum toga. Því er ekki farið inn á nýjar brautir með auknum heimildum til Þingvallanefndar heldur eru henni settar skýrari starfsskorður að því er þennan þátt varðar.

[18:15]

Einnig var því velt upp hvort nauðsynlegt væri að setja vatnsverndarlög til að koma í veg fyrir að hættuleg efni og flutningur þeirra fari um þjóðgarðinn. Í niðurlagsákvæðum 6. gr. er gert ráð fyrir því að Þingvallanefnd geti sett reglur um flutning hættulegra efna og mengandi efna innan þjóðgarðsins. Verið er því að veita heimild til þess og ég tel mjög mikilvægt að fá slíka heimild, ekki síst með tilliti til hugmynda um að leggja Gjábakkaveginn sem er á lokastigi. Menn hafa rætt hér um hann og hann snertir það mál sem menn hafa vakið máls á að sé kannski einhver skuggi á því sem við erum að fjalla um hér, að ekki hafi tekist samkomulag á milli Þingvallanefndar og sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um þá vegarlagningu.

Ég vil aðeins fá að gera grein fyrir málinu hér svo að þingmönnum sé ljóst hvar það stendur. Frá Vegagerðinni hafa komið þær ákveðnu tillögur um lagningu þessa vegar að nota ekki gamla vegarstæðið sem við í sjálfu sér hefðum kosið, gamla kóngsveginn, af því að það er talið standa of hátt. Þess vegna telur Vegagerðin skynsamlegt við lagningu nýs vegar að fara neðar á Lyngdalsheiðina. Þar hafa verið hugmyndir til umræðu og tvær af þeim hugmyndum hafa að okkar mati gengið of nærri þjóðgarðinum og við höfum litið þannig til að umboð okkar stæði til þess fyrst og fremst að gæta hagsmuna þjóðgarðsins og halda nýrri vegarlagningu utan hans. Um það hefur deilan staðið, að við höfum talið skynsamlegt að halda nýjum vegi utan þjóðgarðsins á þessu svæði en sveitarstjórnin hefur óskað eftir því að heimild yrði veitt til vegarlagningar innan þjóðgarðsins.

Vegna þess á hve viðkvæmu stigi málið er varðandi heimsminjaskrána varð það niðurstaða Þingvallanefndar í sáttaskyni við sveitarstjórnina að kanna það hjá ráðgjöfum UNESCO og öðrum sérfræðingum hvort hægt væri að koma til móts við sveitarstjórnina varðandi þessa vegagerð og færa veginn frekar í átt til þess sem sveitarstjórnin kaus en að gera þá kröfu að vegurinn verði alfarið utan þjóðgarðsins.

Af því tilefni var þessu beint til menntmrn. og þeirra sem fara með þessi tengsl okkar við UNESCO. Svarið barst ekki fyrr en í síðustu viku og það er það svar sem við höfum verið að bíða eftir. Í svarinu er eindregið mælt með því að vegarlagningu verði hagað þannig að hún verði utan þjóðgarðsins og utan heimsminjasvæðisins sem við erum að tala um. Við höfum einnig fengið ábendingu um það frá formanni undirbúningsnefndarinnar, Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði, að vegarlagningunni verði hagað með þeim hætti.

Það kort sem hér er birt með þessum þingskjölum okkar er samkvæmt nýjum mælingum sem gerðar eru á grundvelli athugana óbyggðanefndar, þeirrar sem hefur fjallað um þjóðlendurnar. Þegar þetta kort er skoðað og grandskoðað og farið ofan í málið kemur í ljós að Gjábakkalandið hefur verið of stórt og látið teygja sig of langt til suðurs miðað við þær umræður sem við höfum átt við sveitarstjórnarmennina þannig að miðað við það kort sem hér er til umræðu sé ég ekki annað en að Þingvallanefnd geti gengið til þeirrar málamiðlunar varðandi þessa vegagerð sem við höfum boðist til og leituðum eftir gagnvart UNESCO og ráðgjöfum þeirra. Mér sýnist að þetta mál ætti að geta leyst á farsælan hátt af hálfu nefndarinnar ef sveitarstjórnarmenn vilja á annað borð ganga til þeirrar málamiðlunar sem í þessu felst. Við ráðum því ekki og getum ekki sagt þeim fyrir verkum að þessu leyti en við höldum fast við þá skoðun okkar í Þingvallanefndinni að við viljum ekkert gera sem spillir fyrir því að Þingvellir komist á heimsminjaskrána. Það væri ekki gott í umræðum hér um þetta frv. að það sjónarmið kæmi fram og það sjónarmið væri uppi hjá þingmönnum að þeir teldu að Þingvallanefnd ætti að ganga þannig fram í þessu máli að það yrði til þess að spilla fyrir því að Þingvellir kæmust á heimsminjaskrána. Ég trúi heldur ekki að það sé skoðun nokkurs þingmanns að þannig sé staðið að málum, heldur sé það kappsmál allra að um leið og þetta svæði er stækkað fái það þá viðurkenningu sem felst í því að komast á heimsminjaskrána.

Þetta vildi ég segja hér og einnig láta þess getið og taka undir með hv. meðnefndarmanni mínum í Þingvallanefnd, Össuri Skarphéðinssyni, þegar hann segir að við höfum á öllum stigum málsins átt mjög mikið samráð og haft mikið samráð við sveitarstjórnarmenn. Þetta frv. var samið að meginstofni til og allar línur dregnar í það áður en sveitarfélögin á þessum stað voru sameinuð. Þá voru þar kannski aðrir menn sem við ræddum við. Það hefur líka komið fram hjá forustumönnum sveitarfélagsins að þeir eru síður en svo andvígir því að þjóðgarðurinn stækki enda verður viðurkenning þjóðgarðsins á heimsminjaskránni meginstoð í áformum þessara ágætu manna um uppbyggingu á ferðaþjónustu í Bláskógabyggð. Þess vegna er mikilvægt að um þetta mál skapist víðtæk sátt og ekki stefnum við að öðru í Þingvallanefnd. Það hefur verið unnið að því á undanförnum vikum á vegum nefndarinnar með aðstoð sérfræðinga að móta stefnu og aðgerðaáætlun fyrir þjóðgarðinn á næstu árum. Það er hluti af því ferli sem við gengumst undir að sinna þegar þetta heimsminjaferli allt byrjaði, að við mundum vinna að stefnumörkun fyrir þjóðgarðinn til næstu ára. Hún verður kynnt á næstu vikum og gæti þess vegna legið fyrir áður en Alþingi afgreiðir þetta mál hér á vordögum ef allt gengur samkvæmt þeirri áætlun sem við höfum sett. Í því ferli öllu hafa verið kallaðir til sérfræðingar hvaðanæva að, úr öllum áttum má segja, til þess að segja álit sitt á því hvað þeir telja skynsamlegast varðandi nýtingu þjóðgarðsins. Það er mjög mikilvægt að þau sjónarmið liggi fyrir þegar Þingvallanefnd fer að sinna verkefnum með hliðsjón af þessu stærra landi sem við erum hér að ræða um.

Ég er sammála því sem hér hefur komið fram um að æskilegt væri að a.m.k. einu sinni á kjörtímabili hefði Þingvallanefnd tilefni til þess að gera Alþingi grein fyrir skoðunum sínum, stefnu og stefnumörkun með ársskýrslu eða annars konar skýrslu, ekki ársskýrslu ef það yrði einu sinni á kjörtímabili, leggja hér mál fyrir svo að fram færu almennar umræður um málefni Þingvalla í þingsalnum. Þá gætu menn sagt hug sinn og tekið þátt í stefnumörkun á þeim forsendum með nefndarmönnum. Ekki ætla ég að draga dul á það að öll sjónarmið hér í þinginu varðandi framtíð Þingvalla eru mikils metin af Þingvallanefndarmönnum, ekki síður en góð samvinna við sveitarstjórnarmenn og alla þá sem láta sig Þingvelli skipta. Eins og segir í 1. gr. laganna eru Þingvellir friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Undir þeim merkjum starfar Þingvallanefnd að sjálfsögðu og tekur tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma og leitast við að leysa mál á málefnalegum forsendum.