Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 18:23:24 (6080)

2004-04-05 18:23:24# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh., formanni Þingvallanefndar, fyrir þær skýringar sem komu fram í máli hans og lutu að atriðum sem höfðu verið nefnd hér í umræðunni.

Bara til að taka af allan vafa var það sannarlega ekki neitt markmið með ræðu minni að láta í ljósi efasemdir um það að Þingvallanefnd væri með góð áform uppi þegar þessi stærðarmörk þjóðgarðsins eru lögð til. Ég hef ekki tekið neina afstöðu til legu Gjábakkavegarins og það tók ég fram þannig að ég var ekki að fjalla um það að Þingvallanefnd ætti að samþykkja endilega þá legu Gjábakkavegar sem sveitarstjórnin helst vill.

Hitt vil ég að sé alveg á hreinu að stjórnvöld eiga auðvitað að kosta kapps um það að hafa sveitarstjórnir með sér en ekki á móti þegar svona stór mál eru í umræðunni, ég tala nú ekki um þegar þeir miklu hagsmunir eru í húfi sem hæstv. dómsmrh. getur um sem lúta að því að koma Þingvöllum á heimsminjaskrá UNESCO. Það skiptir auðvitað verulegu máli að við stöndum saman um þetta og að það sé sátt um málið en síðustu daga hefur mátt lesa og heyra í fjölmiðlum að sveitarstjórn Bláskógabyggðar sé ósátt við það hvernig málið er lagt fram eða hvernig það hefur verið unnið af stjórnvöldum.

Ég ítreka að það er fjarri mér að draga í efa góð áform sem Þingvallanefnd hefur í þessu máli og ég styð sannarlega þessa stækkun þjóðgarðsins þannig að það sé alveg á hreinu að það var ekkert í mínu máli sem mætti túlka á annan veg.