Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 18:26:23 (6082)

2004-04-05 18:26:23# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að lýsa yfir mikilli ánægju með þetta frv., að það skuli komið fram og að menn skuli ætla sér að stækka þjóðgarðinn á Þingvöllum. Eins og fram hefur komið í ágætum ræðum hér á undan eru Þingvellir ákaflega merkilegur staður, bæði út frá sögulegu sjónarmiði, jarðfræðilegu og kannski ekki síst líffræðilegu og vistfræðilegu. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutti hér ágæta ræðu einmitt um líffræði Þingvallavatns. Hann á reyndar hægt um vik enda höfundur mjög góðrar bókar sem kom út árið 1986 um urriðann og aðra fiskstofna í Þingvallavatni.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson gleymdi samt að minnast á eitt og það er að í Þingvallavatni býr elsti íbúi Íslands, þ.e. marflóartegund ein sem fannst árið 1998 og er að öllum líkindum margra milljóna ára gömul. Þetta allt saman segir okkur það að Þingvallavatn er í vistfræðilegum skilningi, í víðustu merkingu þess orðs, alveg einstakt og því ber að sjálfsögðu að reyna að friða það eftir megni.

Mig langaði þess vegna til að spyrja hæstv. forsrh. tveggja spurninga. Þegar við skoðum kortið sem er hér á fskj. 1 með frv. er þar sýnt hvernig þessi þjóðgarður á að líta út, þ.e. landfræðilega séð, hvar mörk hans liggja. Mig langar til að spyrja í fyrsta lagi: Hvað réði því að nákvæmlega þetta land var lagt undir, ef svo má segja, að þessi mörk voru dregin sem koma fram á þessu korti?

Hin spurningin er þessi: Kom nokkurn tíma til greina að þjóðgarðurinn mundi ná umhverfis allt Þingvallavatn, þ.e. meðfram bökkum alls vatnsins, og að vatnið sjálft yrði þá í heild sinni hluti af þjóðgarði? Það væri gaman að fá svör við þessu því að ég tel að þetta vatn sé í raun og veru það merkilegt og búi enn þá yfir svo miklum leyndardómum sem geta kennt okkur ýmislegt í framtíðinni, til viðbótar því að vera náttúrlega mjög mikilvægt vatnsforðabúr, að það væri kannski ekki úr vegi að þetta vatn yrði hreinlega látið vera hluti af þjóðgarðinum.

Að lokum aðeins örfá orð um ósk okkar í Frjálsl. og Vinstri grænum um að fá að hafa fulltrúa í Þingvallanefnd. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson rifjaði upp gömul ummæli úr Alþingistíðindum frá árinu 1928 og mig langaði aðeins til að segja þingheimi svolítið meira frá því sem hér stendur. Hér tekur t.d. Jónas Jónsson til máls á Alþingi og segir m.a., með leyfi forseta:

,,Til dæmis skal jeg geta þess, að prestinum á Þingvöllum og bóndanum á Brúsastöðum hefur dottið í hug að virkja Öxará, að vísu ekki sjálfan fossinn, en slíkt mannvirki á þessum stað mundi særa fegurðartilfinningu manna. Að vísu er þetta afsakanlegt frá þeirra sjónarmiði, þeir gera þetta ekki til að spilla völlunum, heldur til að lýsa og hita heimili sín. En jeg þarf ekki að fjölyrða um, að það yrði þeim hvumleitt, sem nokkurn smekk hafa fyrir útliti Þingvalla, ef byggðir yrðu ljótir steinsteypukassar á vestari bakka Almannagjár. Jeg ætlast til, að Þingvellir verði undir sérstakri vernd Alþingis héðan í frá. Jeg geri ráð fyrir, að Alþingi verði sá húsbóndi yfir Þingvöllum, sem best fari með staðinn. Jeg býst við, að það verði svo minnugt þeirra daga, er Alþingi var haldið á Þingvöllum, að það sjái jafnan sóma sinn í að fara trúlega með verndarvaldið yfir þessum helgistað.``

Þetta voru orð Jónasar frá Hriflu á Alþingi árið 1928.

[18:30]

Hér kemur greinilega fram hversu framsýnir menn voru á þessum tíma að semja þessi lög sem hafa verið í gildi allar götur síðan um að vernda Þingvelli og er það að sjálfsögðu mjög virðingarvert og þakklætisvert fyrir Íslendinga og komandi kynslóðir. En það kemur líka greinilega fram að Jónas talaði um að Alþingi ætti að vera sá húsbóndi yfir Þingvöllum sem best færi með staðinn.

Ég vil ítreka þá frómu ósk okkar í Frjálsl. og Vinstri grænum að fáum að hafa fulltrúa í nefndinni því kjósendur Frjálsl. og Vinstri grænna eru ekkert verri Íslendingar en kjósendur Sjálfstfl., Framsfl. og Samf., og mér finnst það sjálfsögð og eðlileg krafa og bara réttlætismál að við sem erum fulltrúar kjósenda okkar fáum líka, einhverjir okkar, að vera fulltrúar kjósenda okkar í nefndinni, því eins og margoft hefur komið fram í dag í umræðunum eru Þingvellir helgasti staður þjóðarinnar og öll þjóðin á að geta sameinast um að þessi staður verði verndaður um alla framtíð.