Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 18:52:39 (6088)

2004-04-05 18:52:39# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[18:52]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það má auðvitað margt segja um þessa breytingu hvað varðar tiltekna hópa ökutækja. En það er auðvitað svo að þungaskattskerfið í dag er tilteknum hópum mjög hagstætt. Komið hefur verið verulega til móts t.d. við leigubílana innan núverandi þungaskattskerfis og reyndar á fleiri sviðum og ég hef sérstaklega beitt mér fyrir því að bæta rekstrargrundvöll þessarar tilteknu atvinnustarfsemi, m.a. með því að lækka vörugjöld o.fl. En það breytir ekki því að við getum ekki látið hagsmuni þessa eina hóps stoppa mál eins og það sem hér er á ferðinni. Við verðum að skoða nákvæmlega hvernig málið kemur út fyrir þessa aðila. Ég hef í höndunum útreikninga sem sýna allt annað en það sem hv. þm. nefndi varðandi leigubílana. Það fer auðvitað eftir því hve bílunum er ekið mikið en ég hef handbærar upplýsingar sem eru miklu lægri varðandi breytingar á heildarrekstrarkostnaði bílanna. Það getur vel verið að þeir þurfi á endanum að fleyta einhverri slíkri hækkun út í gjaldskrár sínar. Það kann að vera óhjákvæmilegt. Við skulum gera okkur grein fyrir því.

Hvað varðar flutningabílana hefur sú breyting sem er frá frv. fyrir tveimur árum til dagsins í dag auðvitað lykiláhrif og samkvæmt útreikningum sem ég hef hér, og mun að sjálfsögðu leggja fram í þingnefndinni, er hægt að sýna fram á að kostnaður flutningabíls með vagni, sem er 44 tonn að þyngd, ekur 100 þús. kr. á ári og eyðir 55 lítrum af olíu á 100 km, lækkar um 5% miðað við það sem ég hef hér í höndunum. (KLM: En ef hann eyðir ...?) Ef hann eyðir 75 lítrum á hundraðið er þetta auðvitað öðruvísi, en mér er líka sagt að slíkir bílar séu mjög fáir og kannski er ekki óvitlaust að hvetja menn til þess að fara á sparneytnari bíla.