Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 19:46:23 (6093)

2004-04-05 19:46:23# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[19:46]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir það sem hæstv. fjmrh. sagði. Ég vildi láta koma skýrt fram að ég vildi draga fram þá kosti sem ég sé við frv. og hef svo sem ekki meiru við það að bæta. En ég sé líka marga galla við það sem ég ræddi um og ég vænti þess að það verði list þeirra í efh.- og viðskn. að finna út úr því.

Það sem hæstv. ráðherra nefndi áðan um flutningskostnaðinn, að ekki sé hægt að láta það ráða hvort frv. gengur fram eða ekki, efnislega eitthvað á þá leið sagði hæstv. ráðherra, þá er það svo, virðulegi forseti, og það höfum við rætt hér oft áður og á þá takka hefur oft verið ýtt, það er alveg hárrétt, að landsbyggðin getur ekki lifað við þessi ofboðslega háu flutningsgjöld eins og búið er að koma þeim upp í með breytingum sem hér hafa verið gerðar, bæði af hálfu hæstv. ríkisstjórnar með hækkunum á þungaskattinum eins og 8% hækkuninni og með ákvörðun Samkeppnisstofnunar sem felldi úr gildi gjaldið sem var. Eða með ákvörðun þáv. hæstv. ríkisstjórnar sem lagði niður Skipaútgerð ríkisins. Hún kemur allt í einu upp í huga minn hér af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. (JBjarn: Sko til, ríkisvæðingarmaðurinn.) Þessi mörgu atriði á undanförnum árum hafa gert það að verkum að flutningskostnaðurinn er kominn upp í þær háu hæðir sem hann er í í dag og er að sliga atvinnulífið á landsbyggðinni og ég tala nú ekki um að halda uppi hinu háa vöruverði sem þar er. Þetta höfum við allt saman rætt hér og ég ætla ekki að ræða það í stuttu andsvari við hæstv. fjmrh. Ekki núna. Ég hef átt orðastað við hæstv. byggðamálaráðherra um að það gangi ekkert í því sem lofað var, þ.e. að jafna flutningskostnaðinn.

Virðulegi forseti. Ég óttast að frv. sem hér er hafi í för með sér hækkun á flutningsgjöldum þó ekki jafnsvívirðilega miklum og leit út fyrir fyrst.