Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 20:50:05 (6101)

2004-04-05 20:50:05# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[20:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Vissulega hefði mátt gera það en á móti því kemur að mælarnir eru afskaplega dýrir. Þeir mælar sem hafa verið í gildi hingað til eru mjög dýrir auk þess sem hafa þarf eftirlit með þeim, sem er mjög dýrt, líka fyrir notandann. Þá þarf að skoða á ákveðnum stöðum. Þeir bila gjarnan, eru tengdir við vél bílsins og ísetningin ein sér kostar heilmikið, ég hef heyrt að það kosti 50--80 þús. kr. að setja tækið í og mér skilst að tækið kosti vel yfir 100 þús. kr., án þess að ég viti það nákvæmlega.

Nýja tækið sem ég gat um áðan er miklu ódýrara, það kostar undir 50 þús. kr. og vel undir því. Það tengist bifreiðinni ekki neitt. Þetta mælir á móti því að gera þetta kerfi almennt fyrir minni bifreiðar. Það yrði hreinlega ekki skynsamlegt að kaupa slíkt tæki fyrir mörg hundruð þúsund með ísetningu, auk þess að fara í eftirlit og annað slíkt. Tæknilega hefur þetta ekki verið raunhæft að mínu mati hingað til.