Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 20:52:41 (6104)

2004-04-05 20:52:41# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, GHj
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[20:52]

Guðjón Hjörleifsson:

Frú forseti. Ég fagna frv. hæstv. fjmrh. um olíu- og kílómetragjald. Sambærilegt frumvarp hefur oft áður komið fram á þinginu en aldrei náð fram að ganga. Nú er kominn tími til að ljúka þessu máli.

Ég er sammála því að heimila svokallaða litun varðandi undanþágur og endurgreiðslu, samanber olíunotkun skipa og báta, húshitunar, hitunar almenningssundlauga, iðnaðarvéla, vinnuvéla, dráttarvéla í landbúnaði og raforkuframleiðslu. Samt sem áður verður að tryggja öflugt eftirlit til að ekki verði um misnotkun að ræða.

Þegar slíkar breytingar eru gerðar þá greiða einhverjir meira og aðrir minna. Samt sem áður verður að tryggja að tekjur ríkissjóðs minnki ekki en það mundi hafa áhrif á framlag til vegagerðar. Samkvæmt þessu frv. sést að hinn almenni borgari, sem ekur 15--20 þús. kílómetra á ári, fær mikla kjarabót með því að fara út í kaup á dísilbíl því að samanburðurinn er mjög afgerandi.

Það er ekki óeðlilegt að þeir aðilar sem aka mest og valda mestu sliti á þjóðvegum greiði meira. Frv. þetta er í samræmi við stefnu stjórnvalda í umhverfismálum, að hvetja til kaupa á nýrri og sparneytnari ökutækjum sem gefa frá sér minna magn koltvísýrings en eldri bifreiðir. Dísilknúnar bifreiðir verða hentugur kostur fyrir hinn almenna borgara og miðað við eðlilegan akstur á ári, eins og ég greindi frá er sparnaðurinn umtalsverður í prósentum.

Hv. þm. Kristján L. Möller sagði réttilega að t.d. fyrir ökumann jeppa sem keyrir mikið á ári fylgi aukinn kostnaður. Þó verður að taka inn í samanburðinn að fastagjaldið sem greitt var af mæli þess er ók meira en 20 þús. kílómetra hefur minni áhrif eftir ákveðinn kílómetrafjölda.

Frú forseti. Ef við tökum aðila sem ekur 15 þús. kílómetra á ári, miðað við uppgefna eyðslu hjá umboðsaðilum í dag og miðað við verð hjá olíufélögum í morgun á þjónustutönkum, tökum kostnað vegna bensínbíls, þá er eldsneytiskostnaður 177.300 kr. á ári. Samsvarandi dísilbíll sem keyrir 15 þúsund kílómetra greiðir í eldsneytiskostnað 57.300 kr. á ári en síðan er gjald sem er 6,91 kr. á kílómetra, sem er 103.650. Hér erum við að tala 161.045, 98,8% af eldsneytiskostnaði bensínbíls.

Miðað við sambærilegan dísilbíl eftir breytingu á frv. yrði kostnaðurinn 127.115. á ári, þ.e. 71,68% af rekstri bensínsbíls eða mismunur upp á rúmar 50 þús. kr. á ári sem samsvarar launahækkun upp á 75 þús. kr. á ári. Þetta er svipað og 5% launahækkun á 1.500 þús. árslaun. Aðilinn sem á bensínbílinn og ekur 15 þús. kílómetra á ári greiðir 39,3% hærri eldsneytiskostnað eftir þessa breytingu. Þetta ætti a.m.k. að vera hvetjandi fyrir hinn almenna borgara.

Það er einnig ljóst að óhagræði við greiðslu þungaskatts og þung greiðslubyrði hafa komið í veg fyrir að dísilknúnar bifreiðir séu eins margar og í nágrannalöndum okkar. Eftir breytingu á þessu frv. þá dreifist greiðslubyrðin eftir notkuninni í stað tveggja til þriggja gjalddaga á hverju ári. Dísilbílum hlýtur að fjölga hér á landi í kjölfar þessara breytinga. Einnig eru líkur á að það verði betri skil til ríkissjóðs vegna þessara breytinga þar sem möguleikar til undanskota verða minni. Fyrirkomulagið gæti jafnvel skapað ríkissjóði viðbótartekjur sem nýst gætu til frekari uppbyggingar vegamála.

Ég tel að frv. sem hæstv. fjmrh. leggur hér fram hafi mikla kosti og hagræði þegar á heildina er litið.