Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 21:09:08 (6108)

2004-04-05 21:09:08# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[21:09]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. var að vísa til þeirrar umræðu sem farið hefur fram undanfarið um lækkun á gjöldunum í gegnum Hvalfjarðargöngin. Þess vegna þýðir kannski ekki að miða við það sem hv. þm. sagði meðan hann var enn þá samgrh. og vísa til þess sem menn hugsuðu þá. Núna hafa menn verið að tala um það í fúlustu alvöru og hæstv. samgrh. hefur hvað eftir annað nefnt það að til greina kæmi að taka upp einhvers konar umferðargjöld um þau mannvirki sem talað er um að byggja út úr borginni. Þá hlýtur að þurfa að horfa yfir málin í heilu lagi.

Auk þess sjá menn fram á að opnuð verði ný jarðgöng austan til á landinu innan tiltölulega fárra mánaða og ætla menn þá að sitja uppi með að hafa ekki tekið neinar ákvarðanir um hvaða stefna eigi að gilda? Ég held að menn verði að fara að gera það og kallað hefur verið eftir því hvað eftir annað. Það hefur ekkert komið út úr því. En auðvitað verður aldrei hægt að líða að það verði látið bitna á tiltölulega fáum í landinu að borga í umferðarmannvirki en meiri hluti landsmanna sleppi við það. Þess vegna sprengdu menn skýlin forðum og ég er hræddur um að það þurfi að hafa þau sprengjuheld ef menn ætla að auka á óréttlætið sem gildir.