Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 21:10:40 (6109)

2004-04-05 21:10:40# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[21:10]

Halldór Blöndal (andsvar):

Ég skil ekki alveg, frú forseti, hvað fyrir hv. þm. vakir. Nú er auðvitað hægt að fletta því upp hvað flokksbræður hv. þm. og hann sjálfur sögðu um veggjaldið á sínum tíma í sambandi við Hvalfjarðargöngin. En staðreyndin er sú að við horfum öðruvísi til mikilla vegaframkvæmda á mjög strjálbýlum stöðum. Við getum tekið Vestfirði sem dæmi. Þeir eru í kjördæmi hv. þm. Ég geri ekki ráð fyrir því að hann hafi með orðum sínum áðan verið að leggja til að það kæmi veggjald í jarðgöngin sem liggja frá Ísafirði til Suðureyrar eða til Flateyrar. Hið sama á auðvitað við á hinum fámennustu stöðum.

Ég var á hinn bóginn að tala um það áðan að það gæti flýtt göngum í gegnum Vaðlaheiði ef þar yrðu að hálfu leyti greidd veggöng vegna þess að menn búast við að þau göng verði mikið notuð og af þeim sökum sé brýnt að hrinda þeirri framkvæmd fram, líka vegna þess að Víkurskarðið er versti eða næstversti kaflinn á hringveginum, Víkurskarðið og Bakkaselsbrekkan sínum megin hvor. Hv. þm. verður á hinn bóginn að eiga það við sjálfan sig ef hann vill hafna þeirri leið í framtíðinni að hægt sé að flýta fyrir framkvæmdum með hæfilegum veggjöldum. Þar erum við auðvitað á öndverðum meiði.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Ég hygg að það séu engin rök fyrir því að rétt sé að fara í veggjald á Sundabraut eins og hún er hugsuð frá Geldinganesi vegna þess að þá mundi umferðin eftir sem áður vera upp Ártúnsbrekkuna en það er einmitt verið að reyna að fara í þessa framkvæmd til að dreifa umferðinni og jafna þungann.