Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 21:23:05 (6111)

2004-04-05 21:23:05# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, KLM
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[21:23]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Um leið og fer að líða að lokum 1. umr. um þetta mál eru nokkur atriði sem ég vil hnykkja á bara til að fyrirbyggja misskilning. Menn eru að núllstilla, taka upp ákveðnar tekjur ríkissjóðs, ætla að breyta kerfi en búa til kerfi til að ná í nákvæmlega sömu peningana aftur og áfram, gera engar breytingar á því, jafnvel sem hefur ekki verið viðurkennt af hálfu stjórnarliða, a.m.k. ekki úr þessum ræðustól, en í raun og veru kom fram viðurkenning á því í ræðu hv. síðasta þingmanns, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem ég hef kallað allra verstu landsbyggðarskatta sem lagðir hafa verið á undanfarin ár, þ.e. þessa svakalegu hækkun á þungaskatti. Hún hefur svo farið út í verðlagið, út í flutningskostnaðinn og viðheldur þessum svimandi háu, allt of háu, flutningsgjöldum. Þau eru að drepa atvinnulíf víðast hvar á landsbyggðinni, hamla þar vexti og viðgangi og eru m.a. að skekkja samkeppnishæfni fyrirtækja. Sum fyrirtæki eru jafnvel farin að hugsa sér að leggja niður starfsemi sína á landsbyggðinni og flytja hana suður á höfuðborgarsvæðið. Ætli það sé einhver tilviljun, virðulegi forseti?

Tökum bara dæmi. Svínabú landsins eru öll komin á höfuðborgarsvæðið, kjúklingabú, hænsnabú. Gera menn sér grein fyrir því að tvö af kannski bestu kjötvinnslufyrirtækjum landsins, sem eru norður á Akureyri, greiða upp undir 140 millj. kr. í flutningskostnað á sinni ágætu afurð frá Akureyri og suður á höfuðborgarsvæðið? Ætli það væri ekki betra ef þessi fyrirtæki hefðu aðeins ofar á reikningnum sínum þessa upphæð í staðinn fyrir þau gjöld sem þarna er verið að greiða? Höfum það hugfast líka, virðulegi forseti --- því hefur ekki verið hnekkt heldur --- að sennilega upp undir helmingur af þessum greiddu flutningsgjöldum þessara fyrirtækja er beinn skattur til ríkissjóðs, til hæstv. fjmrh. Geirs H. Haardes.

Það er þetta sem ég er að andmæla, að í það frv. með þeim jákvæðu punktum sem hér snýr líka að öðru er allt sett inn gagnvart flutningskostnaði þannig að hann verði jafnhár. Svo kemur hæstv. ríkisstjórn rétt fyrir kosningar, og frambjóðendur hennar veifa einhverri skýrslu sem var gerð í aðdraganda kosninga og þykjast ætla að fara að lækka eitthvað flutningsgjöld. Hvar eru efndirnar? Efndirnar voru þær að þungaskatturinn hækkaði um 8% um áramótin. Hann fór þráðbeint út í verðlagið. Efndirnar eru engar. Og hvað á það að þýða þegar hæstv. byggðamálaráðherra talar um flutningsjöfnun og kennir því um að það sé stopp úti í Brussel?

Hæstv. ráðherra virðir alþingismenn ekki viðlits og leyfir þeim ekki að sjá þær tillögur sem hún þykist vera að vinna eftir og ég gat um áðan. Það kemur fram í svari þess ráðherra til mín á Alþingi í dag að hún neitar þingmönnum um að sjá þessar tillögur. Hún hefur hins vegar sagt það á fundi norður á Akureyri að það standi ekki til, sé ekki í hugmyndum hennar, að jafna neinn flutningskostnað á flutningum á fiski en það kemur fram í þessu frv. að vegna breytinga á atvinnuháttum hafi fiskflutningar til og frá stöðum vaxið svakalega, út af breyttu útgerðarmynstri. Það á ekkert að jafna.

Ég vildi bara halda því til haga að við erum að núllstilla miðað við þessa 5,3 milljarða sem ríkissjóður hefur þarna. Þar að auki ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra út í nokkuð en ætla helst ekki að vera miklu lengur við þetta við 1. umr. Það er getið um það í þessu plaggi að virðisaukaskattur ríkissjóðs er 470 millj. sem koma af þessu breytta kerfi, þ.e. 470 nýjar millj. koma inn í ríkissjóð í virðisaukaskatt af olíugjaldinu frá þeim einstaklingum sem borga olíugjald og geta ekki tekið virðisaukann sem innskatt eins og fyrirtæki gera.

Eru þetta nýjar 470 millj. algjörlega? Er þetta tekjuauki ríkissjóðs við að breyta þessu kerfi? Ég ætla ekki að fara frekar út í það. Ég get skýrt frá því að ég átti kost á því að ræða það í stuttu andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal. Einn af ókostum þessa frv. sem við ætlum að vera með er þessi tvö kerfi. Við ætlum að vera með olíugjald og svo ætlum við að vera með kílómetragjald. Menn tala um óhagræði og allt það sem hlýst af því að vera með mæla, viðhald og álestur, koma tvisvar á ári í álestur o.s.frv. en hvað ætlum við að gera? Við ætlum að vera með 5.000 notendur áfram á mæli.

Hæstv. fjmrh. sagði áðan að það gætu vel verið hnökrar á þessu frv. og ég hygg að svo sé. Ef það á, eins og ég skildi hæstv. fjmrh. áðan, að klára þetta fyrir þinglausnir 7. maí þarf efh.- og viðskn. að vinna nokkuð hratt en hæstv. fjmrh. gat þess líka að ef hnökrar kæmu í ljós á þessum lögum væri hægt að skoða það mál í haust. Ég vil mælast til þess, virðulegi forseti, að við gefum okkur þá örlítið lengri tíma í efh.- og viðskn. til að fara yfir þetta mál þannig að það þurfi ekki að fara að gera það. Ég sé í hendi mér í dag ýmsa hnökra á þessu frv., því miður. Ég hef þegar gert suma að umtalsefni. Ég hef ekki komist í þá alla. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það er ljóst að efh.- og viðskn. bíður mikið verkefni að fara í gegnum þessa hluti, kalla eftir þeim vinnugögnum sem fjmrn. hefur verið að vinna eftir þar sem sett hefur verið upp reiknimódel fyrir ýmsa aðila þjóðfélagsins og annað slíkt. Ég óttast það, virðulegi forseti, að samt sem áður --- ég ætla að ítreka það enn einu sinni, búið er að ganga skref til móts við að hækka ekki flutningsgjöldin meira, það er komið nóg og skattur á flutningsgjöldum er nægur fyrir --- séu því miður ýmsir hnökrar í þessu sem geri það að verkum að flutningsgjöld geti hækkað enn frekar í landinu.