Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 22:17:32 (6117)

2004-04-05 22:17:32# 130. lþ. 94.16 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[22:17]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir innlegg hennar í umræðuna. Spurt er: Af hverju 600 þús. kr. þak? Af hverju ekki 500 þús. kr. eða 700 þús. kr.? Það skal viðurkennt, hæstv. forseti, að fyrir þessu liggja ekki vísindalegar ástæður heldur fyrst og síðast að það var mat þeirra sem að breytingunum unnu að rétt væri í fyrsta lagi að setja þak á greiðslurnar og í öðru lagi að þak á þessu bili ætti að tryggja í fyrsta lagi aukna samstöðu um kerfið sem er til umræðu og í öðru lagi að það hefði ekki áhrif á það markmið laganna að það yki líkur á jafnrétti á vinnumarkaði okkar.

Nú hafa farið fram útreikningar um að Atvinnuleysistryggingasjóður þoli 750 millj. kr. millifærslu sem fjallað er um í lagafrv. Já, hæstv. forseti, það hefur verið gert og þá útreikninga er að sjálfsögðu hægt að leggja fram gagnvart félmn. í umfjöllun hennar um málið en talið er að sjóðurinn þoli þetta. Komi hins vegar í ljós að forsendur sem gefnar eru, svo sem varðandi atvinnuleysi, standist ekki til framtíðar þarf að bregðast við því sérstaklega.

Hv. þm. spyr: Hvað með atvinnulausa? Þær breytingar sem hér eru lagðar til breyta engu varðandi hagi atvinnulausra í kerfinu. Það er hins vegar ein meginforsenda kerfisins að bæta fólki þær meðaltekjur sem það hefur haft á viðmiðunartímabilinu og þarna er ekki um neina breytingu á því að ræða. Það er fjallað um sektir í lagafrv. sem verða ákveðnar af dómstólum eins og gerist um aðrar sektargreiðslur en það er ein meginforsenda þeirra breytinga sem hér eru að auka og herða viðurlög og auka eftirlit með því að rétt sé farið fram af hálfu foreldra við töku fæðingarorlofslauna.

Tími minn leyfir ekki frekari andsvör að þessu sinni, hæstv. forseti, en ég lýk þeim á eftir.