Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 22:21:43 (6119)

2004-04-05 22:21:43# 130. lþ. 94.16 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[22:21]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar umrædda 33. gr. laga á hún við um greiðslur úr sjóðnum sjálfum og sé öryrki þátttakandi á vinnumarkaði gilda um hann sömu reglur og aðra á vinnumarkaði, enda fær hann þá 80% af tekjum sínum. Sé hann hins vegar utan vinnumarkaðar fara greiðslur fæðingarstyrks saman við örorkulífeyrinn og tryggja honum þar með greiðslu fæðingarstyrksins eins og um aðra væri að ræða.

Varðandi orlofið, hæstv. forseti, komst úrskurðarnefnd um fæðingar- og foreldraorlof að þeirri niðurstöðu í júlí sl. að okkur bæri ekki að greiða orlofslaun í fæðingarorlofi. Það er rétt sem hv. þm. hefur bent á að félmrn. hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að sjóðnum bæri að greiða foreldrum orlofslaun.

Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er endanleg ákvörðun á þessu sviði innan stjórnsýslunnar og ráðuneytið mun, eins og ég hef áður lýst, hlíta þeirri niðurstöðu.

Að því er varðar endurskoðun laganna varð niðurstaðan að taka ákvæði 14. gr. laganna ekki upp að þessu sinni. Það sjónarmið þótti vega þyngra að finna leiðir til að viðhalda sjóðnum og því kerfi sem við höfum byggt upp sem næst núverandi mynd áður en farið væri að tryggja foreldrum enn frekari réttindi en ástæða þætti til.

Það er rétt eins og fram hefur komið í máli hv. þm. að Alþýðusamband Íslands hefur stefnt Tryggingastofnun vegna Fæðingarorlofssjóðs um að viðurkennt verði með dómi að stofnuninni beri að greiða foreldrum orlofslaun vegna þess tíma sem þeir eru í fæðingarorlofi og njóta greiðslna úr sjóðnum. Málið fer nú sína hefðbundnu leið, hæstv. forseti, innan dómskerfisins en það er ljóst að stjórnvöld verða að hlíta þeirri niðurstöðu er dómstólar komast að á sama hátt og aðrir að sjálfsögðu.

Ég tel, hæstv. forseti, að ég hafi svarað spurningum hv. þm. við þessa umræðu og vona að hv. þm. sé mér sammála.