Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 22:28:47 (6123)

2004-04-05 22:28:47# 130. lþ. 94.16 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[22:28]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. getur dregið hvaða ályktanir sem honum sýnist af því sem ég hef sagt. Það skiptir mig litlu. Ég er bara að gera eins og við eigum að gera, vega og meta kosti og galla breytinganna sem verið er að setja fram á lögum. Síðan tek ég endanlega afstöðu eftir að við höfum farið yfir málið, ég, hv. þm. og fleiri þingmenn í hv. félmn. Ég sagði að rökin væru mjög sterk fyrir að setja þak á, að það væri ekki verið að greiða úr Atvinnuleysistryggingasjóði, því þetta eru peningar sem koma þaðan, hálaunafólki 1,5--2 millj. kr. á meðan við greiðum fólki á atvinnuleysisbótum ekki nema 90 þús. úr sjóðnum.

Menn hafa viljað setjast yfir og reyna að leitast við að jafna kjörin á hinum almenna vinnumarkaði og opinbera markaði. ASÍ hefur t.d. sett fram þá kröfu. Þess vegna erum við að stíga skref til baka í því efni með þessu vegna þess að menn stóðu í þeirri meiningu að verið væri að jafna fæðingarorlofið milli þeirra sem vinna hjá hinu opinbera og þeirra sem vinna á almenna markaðnum, þá vilja menn ekki vera að stíga skref til baka eins og nú hefur komið í ljós þegar fæðingarorlofið komst til framkvæmda að bara annar helmingurinn af vinnumarkaðnum fær orlof eftir fæðingarorlof en hinn ekki. Það er ekki leið sem ég vil fara. Þess vegna berst ég mjög hart fyrir því ásamt fleiri þingmönnum sem hafa af þessu virkilegar áhyggjur. Liggur meira að segja fyrir frv. um það efni í þinginu sem við hljótum að taka til skoðunar í félmn. Það verður að færa þetta til þess horfs að leiðrétta mismuninn sem þarna er hjá fólki, vegna þess að í raun og sanni er þetta þannig að meðan skekkjan er í fæðingarorlofskjörunum hafa þeir sem eru á almenna vinnumarkaðnum 2--3 vikum minna í reynd í fæðingarorlof en hinn helmingurinn sem vinnur hjá hinu opinbera og það mun örugglega leiða til þess að karlar taka síður fæðingarorlof en áður.