Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 22:59:31 (6126)

2004-04-05 22:59:31# 130. lþ. 94.16 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, PHB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[22:59]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þegar lög um fæðingarorlof voru sett var það gífurlega mikil lagabót og bót við velferðarkerfið eins og hér hefur komið fram. Ég vil benda á að tilgangur þeirra laga var fyrst og fremst, herra forseti, að bæta stöðu karla og kvenna, jafna stöðu þeirra á vinnumarkaðnum. Þannig var að áður tóku konur eingöngu fæðingarorlof sem gerði það að verkum að þær voru miklu dýrari vinnukraftur fyrir atvinnulífið en karlmenn með sömu laun.

[23:00]

Það kostar mjög mikið fyrir fyrirtæki að missa starfsmann út í hálft ár, ráða nýjan í staðinn, sem kostar mikið, og leysa úr vandanum þegar fyrirtækið situr uppi með tvo starfsmenn að loknu fæðingarorlofi. Ég hugsa að skjóta megi á að slíkar breytingar kosti a.m.k. þrenn mánaðarlaun. Konur voru þar af leiðandi dýrari en karlmenn og því réttlætanlegt að borga karlmönnum hærri laun fyrir sömu vinnu. Fæðingarorlofinu var ætlað að laga þessa stöðu. Þetta var fyrst og fremst jafnréttismál vegna þess að menn töldu mikilvægt að á launamarkaðnum gilti jafnrétti. Af hverju skyldu menn vilja það? Það má færa rök fyrir því að jafnrétti þýði betri nýtingu á mannskap og þar af leiðandi er þetta efnahagsmál fyrir utan það að vera réttlætismál.

Vandi Fæðingarorlofssjóðs er að þetta gekk of vel. Menn ákváðu að hafa fæðingarorlofið 80% af launum, sem var gífurleg hækkun frá því sem áður hafði verið, sérstaklega fyrir fólk með hærri laun. Áður voru bæturnar tiltekin krónutala og mjög lág upphæð. Menn ákváðu að hafa hlutfallið 80%. Í umræðunni á þeim tíma gat ég þess að menn hefðu alveg eins getað haft það 75%, það væri miklu eðlilegri tala, jafnvel 70%. Fólk sparar heilmikið við það að vera heima. Það getur náð betri innkaupum, séð um þrif og viðgerðir og margt annað, fyrir utan það að passa börnin ef þau eru fleiri fyrir. Þar af leiðandi þarf ekki að kaupa pláss á barnaheimili á meðan. Það er heilmikill sparnaður í því fólginn að sækja ekki vinnu.

Mér finnst að menn eigi að skoða þann þátt líka. En hvað erum við að gera með því að skerða hámarkið við 600 þús. kr. tekjur? Hvað þýðir það miðað við markmið laganna, að gera karlmenn jafndýra og konur? Það þýðir að markmiðið er núna það að gera karlmenn jafndýra konum þar til kemur að háu laununum. Þar ætlum við að hafa karlmennina ódýrari. Þar viljum við ekki jafnrétti. Við viljum ekki að konur séu með há laun. Það er það sem þetta frv. segir. Í milljón króna stöðum eiga karlmenn að sitja og fara ekki í fæðingarorlof. Þess vegna eru þeir ódýrari en konur í sömu stöðum, með milljón krónur á mánuði, því að þær mundu fara í fæðingarorlof. Að sjálfsögðu.

Þetta er mikill stílbrjótur og vinnur gegn því markmiði sem lögin höfðu á sínum tíma, að bæta jafnrétti kynjanna. Nú getur vel verið að einhverjum þyki allt í lagi að konur séu með sömu laun og karlar upp að vissum tekjum, en ekki eftir það. Mér finnst það ekki.

Komið hefur fram að þetta sparar ekki nema 50--60 millj. kr., þessi aðgerð ein sér, þ.e. hámarkið. Af hverju er svo mikill vilji fyrir að skerða þetta? Af hverju sjá menn ofsjónum yfir því að maður með milljón á mánuði fái 800 þús. kr. á mánuði í fæðingarorlof? Skyldi það vera öfund? Sjá menn ofsjónum yfir þessu? Eða hvað er þetta? Ég vil benda á að maður með milljón á mánuði borgar sennilega 350 þús. kr. í skatta í hverjum einasta mánuði. Hann borgar tryggingagjald upp á 50--60 þús. kr. á mánuði, sem rennur í þetta kerfi. Ekki fær maðurinn atvinnuleysisbætur miðað við milljón á mánuði. Það er miklu minna. Hann fengi því minna úr kerfinu væri hann atvinnulaus. Því er ekki í lagi að hann fái þá í hlutfalli við laun út úr fæðingarorlofinu?

Ég vil benda á að við erum með annað kerfi í gangi í þjóðfélaginu sem enginn sér ofsjónum yfir, það eru lífeyrissjóðirnir. Þeir borga beint eftir tekjum. Sá sem hefur tvöfalt hærri tekjur heldur en annar fær tvöfalt hærri lífeyri. Það finnst öllum eðlilegt. Hann stendur undir því með iðgjaldi upp á 4% og atvinnurekandinn borgar 6% af þessum launum, nákvæmlega eins og tryggingagjaldið. Þetta er því algjör stílbrjótur. Ég skil ekki umræðuna nema einhver lítils háttar öfund sé einhvers staðar í gangi. Þá ættu menn að beina öfundinni að því að menn séu með milljón krónur í tekjur og spyrja hvernig stendur á því, en ekki að krukka í þetta kerfi.

Þær aðgerðir sem í frv. er gert ráð fyrir til að koma í veg fyrir svindl finnast mér eðlilegar og sjálfsagðar. Þær hefði mátt gera fyrr. Þær eru taldar spara 100 millj. kr. Ég hugsa að þær spari meira á endanum.

Svo komum við að því sem er í raun aðalatriðið, þ.e. þessum 80%. Af hverju völdu menn 80%? Hámarkið sem menn setja sparar ekki nema 50--60 millj. kr. Það er 1% af útgjöldunum. Það hefði mátt lækka prósentuna niður í 79,2% með nákvæmlega sama sparnaði. Allir fái 79,2% af launum og ekkert þak. Nákvæmlega sömu útgjöld. Hvað eru menn eiginlega að gera? Af hverju standa menn í þessu brölti?

Ég sé reyndar aðra lausn sem felst í að lækka hlutfallið niður í 70%, láta menn fá 10 þús. kr. í byrjun, fæðingarorlofið 10 þús. kr. plús 70% af launum. Það kæmi að ég held miklu skynsamlegar út og mundi spara 400--500 milljónir. En einhverja útreikninga þarf að gera til sjá það betur. Þetta verður væntanlega allt skoðað í nefndinni þegar hún fær málið til umfjöllunar.

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talaði um markaða tekjustofna, að menn væru með gula peninga, rauða peninga og bláa peninga, eftir því í hvað þeir eiga að fara. Auðvitað er þetta allt ein hít. Ríkissjóður er bara ríkissjóður hvort sem hann heitir Atvinnuleysistryggingasjóður, Fæðingarorlofssjóður, guð má vita hvað. Þetta er allt saman einn ríkissjóður og einn skattur sem rennur inn. Tryggingagjaldið er skattur á laun allra landsmanna, launaskattur og alveg sama hver borgar hann. Það er sama hvort það eru fyrirtækin eða launþeginn sem borga skattinn, í rauninni er launþeginn að borga flatan tekjuskatt. Það mætti hækka laun allra landsmanna um 6,3% eða hvað það nú er og láta þá borga tryggingagjaldið sjálfa. Ekkert breyttist við það, ekki nokkur skapaður hlutur. Í raun er launþeginn að borga flatan tekjuskatt sem tryggingagjald.

Þetta rennur í alls konar potta. Fyrir utan 150 millj. kr. sparnaðinn, þ.e. 50--60 millj. kr. vegna hámarksins og 100 millj. kr. vegna minna svindls, er allt annað í frv. hókus pókus. Það er líkt því þegar galdramaðurinn dregur kanínur úr hattinum. Þær voru í hattinum áður. Það breytist ekki neitt. Þetta er bara hókus pókus. Menn geta talað um Atvinnuleysistryggingasjóð en þeir vita nákvæmlega hvað gerist ef hann tæmist. Þá þarf eitthvað að koma til. Það er auðvitað hárrétt sem hv. þm. Gunnar Birgisson benti á, að menn hefðu nákvæmlega eins getað lækkað álögurnar á atvinnulífið sem þessu nam um alla tíð meðan ekki þurfti að nota gjaldið.

Þetta er ekkert annað en skattahækkun. Auðvitað þarf að borga hlutina einhvers staðar. Það vill bara þannig til að atvinnuleysi er lítið sem stendur og fer vonandi minnkandi. Ég er alveg sammála því. Hv. þm. Gunnar Birgisson nefndi að atvinnuleysi mundi minnka og þá þurfum við ekki að sækja jafnmikið í Atvinnuleysistryggingasjóð. Við gætum þess vegna leyft okkur þessa aukningu á útgjöldum án þess að þurfa að leggja það sérstaklega á atvinnulífið en við hefðum getað lækkað álögurnar á atvinnulífið í staðinn.

Ég vil ekki ljúka máli mínu án þess að taka fram að ég er á móti þessari skerðingu á hámarkinu. Ég held að menn hljóti að sjá að það er ekki rétt aðgerð. Menn hljóta að sjá það. Hún sparar ekki neitt og er aðeins til að viðhalda launamismun í þeim geiranum. Við munum áfram sjá á aðalfundi Seðlabankans eintóma karlmenn. Það er alltaf minn mælikvarði á jafnrétti. Þegar fleiri konur sjást þar tel ég að jafnréttið sé farið að lagast.

Ég vil geta þess að samkvæmt gögnum kjararannsóknarnefndar, alla vega síðustu tvö árin, hafa laun kvenna hækkað töluvert meira en laun karla, þ.e. um heilt prósent. Það skyldi ekki vera í samhengi við breytingar á fæðingarorlofi? Það skyldi þó ekki vera að lögin séu farin að virka til jafnréttis, sem var aðalmarkmiðið? Það að það komi börnunum til góða, heimilunum o.s.frv., er aukaafurð, mjög góð aukaafurð reyndar.

Á ráðningarskrifstofum hefur mér verið tjáð að önnur áhrif þessarar lagasetningar sé, þar sem búið var að gera verðandi feður og mæður jafndýr, báða hópa, að fólk sem komið er úr barneign, þ.e. yfir fertugt, hafi meiri möguleika á að fá vinnu en áður var. Ég tel að það séu mjög góð áhrif af frumvarpinu ef svo er. Fordómar atvinnulífsins gagnvart eldri starfsmönnum eru umtalsverðir og þeir sem komnir eru yfir fimmtugt hafa átt erfitt með að fá vinnu. Ég tel ágætt ef þessi lög hafa gert það að verkum að menn eigi auðveldara með að fá vinnu á þeim aldri.

Ég vara við því, herra forseti, að taka upp þessa skerðingu. Hún gefur ekki neitt, a.m.k. mjög lítið. Hún gefur þau merki út í atvinnulífið að konur eigi ekkert að fara í þessi hálaunastörf, þar eigi að vera karlmenn.