Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 23:10:59 (6127)

2004-04-05 23:10:59# 130. lþ. 94.16 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, HHj
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[23:10]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég verð að byrja á að segja að það er nokkuð erfitt að átta sig á málflutningi þingmanna Sjálfstfl. við þessa umræðu. Tveir hv. þingmenn, Gunnar Birgisson og Pétur H. Blöndal, eru augljóslega ekki á sama máli og tala í austur og vestur. Annar talar fyrir því að ekkert þak skuli á þeim greiðslum sem við fjöllum hér um úr Fæðingarorlofssjóði en hinn segir að þakið eigi í raun að vera miklu lægra til að spara meira fé. Mér þykir það miður því að ég held að miklu máli skipti í umfjöllun um þetta mál að um það takist sem víðtækust samstaða. Ég þakka ráðherra fyrir þá áherslu sem hann hefur lagt á það. Ég tel að ein af forsendum þess að lögin hafa reynst í framkvæmd svo farsælt verkefni sem raun ber vitni sé að um þau tókst á þinginu þverpólitísk og mjög góð eining. Ég held að það sé mikilvægt að í umfjöllun þingsins um málið sé reynt að standa sem best vörð um þá einingu, að menn ræði út þau ýmsu álitaefni sem hér kunna að vera og reyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Hér er sannarlega um að ræða eitthvert mesta framfaraspor í félagslegri samtryggingu á landinu síðasta áratug sem stigið hefur verið. Ábyrgð okkar í að fjalla um það er mikil, ekki síður vegna þess að að sumu leyti hefur verið horft til þessa kerfis frá öðrum löndum, jafnvel sem fyrirmyndar að nokkru leyti. Ábyrgð okkar er því kannski að sínu leyti enn meiri ef sú löggjöf sem við höfum sett og erum að fjalla um endurskoðun á getur orðið fyrirmynd annarrar löggjafar.

Í upphafi þessarar umræðu vil ég því fá að inna hæstv. félmrh. eftir því hvaða rannsóknir og úttektir og skýrslur liggja til grundvallar þeim tillögum sem hann leggur fyrir þingið. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Hér er um 5 milljarða kr. árleg útgjöld að ræða og nokkuð sem við teljum eitthvert stærsta skref í fjölskyldumálum á Íslandi og launajafnrétti kynjanna sem stigið hefur verið síðastliðinn áratug. Ég tel mikilvægt að við fjöllum ekki um það eins og síðasti hv. þm., á þeim forsendum að við höfum heyrt eitthvað eða að við höldum eitthvað. Við þurfum að byggja á traustum grunni.

Ég tel að um margvísleg atriði þurfi sannarlega að vera fyrir hendi glöggar upplýsingar. Ég nefndi t.d. að vísað er til þess í greinargerð með frv. að brögð hafi verið að því að fólk hafi fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en samtímis verið á launaskrá. Mikilvægt er að það komi fram hve stór hópur er þar á ferðinni sem hefur e.t.v. verið að misnota kerfið með þeim hætti, eða hvort hann sé kannski ákaflega lítill og gefi ekki tilefni til sérstakra aðgerða.

Hjá mér vakna jafnframt spurningar um að hve miklu leyti forsjárlausir foreldrar hafi nýtt sér sjálfstæðan þriggja mánaða rétt til töku fæðingarorlofs. Hefur það verið að jafnmiklu leyti og aðrir hópar og þar fram eftir götunum? Hefur fæðingartíðni aukist eins og mér heyrðist hv. þm. Gunnar Birgisson telja til áhrifa af frumvarpinu? Ef svo er, er það þá sérstaklega hjá ákveðnum tekjuhópum? Hefur það haft sérstök áhrif hjá þeim tekjuhópum sem þessi breyting gagnaðist best og þar fram eftir götunum? Ég kalla eftir því að hæstv. félmrh. geri okkur grein fyrir þeim rannsóknum og þeim vönduðu fræðilegu og faglegu úttektum sem ráðherrann hefur lagt til grundvallar þeim breytingum sem settar eru fram í frv.

[23:15]

Í öðru lagi óska ég eftir því að áður en 1. umr. lýkur geri hæstv. félmrh. mjög nákvæmlega grein fyrir því úr þessum ræðustól hvað það var nákvæmlega í kostnaðarútreikningunum við frv. sem fór úrskeiðis. Því þó ég geti tekið undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að það sé trúlega fyrst og fremst að rekja til þess að frv. hafi haft meiri og betri áhrif en menn gerðu ráð fyrir þegar lögin voru sett, held ég að það sé mjög mikilvægt þegar í eina ákvörðun fara árlega 1.300 millj. kr. umfram áætlun að það sé rakið lið fyrir lið nákvæmlega í hverju það fólst. Hvaða þættir voru vanmetnir og hve mikið voru þeir vanmetnir? Ekki vegna þess að ég ætli að sjá eftir útgjöldunum, heldur að okkur sé ljóst hvaða mistök voru gerð þannig að menn geti lært nokkuð af þeim við umfjöllunina um frv. og sömuleiðis um önnur frv., vegna þess að það er mikilvægt að slík mistök endurtaki sig ekki. Ég óska þess vegna eftir því að gerð sé grein fyrir þessu við umræðuna, enda hlýtur hæstv. félmrh. að hafa kynnt sér mjög vandlega hvað fór úrskeiðis í útreikningunum.

Ég tel hins vegar að þessu fé sé vel varið og vil að það komi skýrt fram og sýnist á frv. félmrh. að hann sé sama sinnis, enda er ekki gert ráð fyrir að mæta fjárhagsvandanum með því frv. sem hér er til umfjöllunar. Ég held að þar megi taka undir með hv. þm. Gunnari Birgissyni og Pétri H. Blöndal, ég man ekki hvor þeirra kallaði þessar aðgerðir ,,hókus pókus``, en auðvitað er ekki verið að taka á fjárhagsvanda Fæðingarorlofssjóðs heldur einfaldlega ákveða að senda reikninginn eitthvert annað og tiltölulega óljóst með hvaða hætti eigi að mæta honum. Það er gert ráð fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður eigi að bera þar 750 millj. kr. Ég man ekki betur en að í fjáraukalögum hafi þurft að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að setja verulegar fjárhæðir í Atvinnuleysistryggingasjóð, vegna þess að atvinnuleysi hafði bara núna fyrr í vetur reynst meira en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Við höfum því tiltölulega nýlegt dæmi um að fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs hafi af þessu sama ráðuneyti verið vanáætluð. Ég tel að það gæti að ýmsu leyti verið hreinlegra að hækka einfaldlega tryggingagjaldið sem þessu nemur, 0,15%, fremur en að sækja þessa fjármuni í Atvinnuleysistryggingasjóð því við hljótum líka að horfa til þess að á þeim hagvaxtartíma sem fram undan er hljóti það fremur að eiga að vera markmið okkar að leggja nokkuð aukið fé í Atvinnuleysistryggingasjóð til þess að mæta erfiðleikum sem síðar kunna að verða á vegi okkar en ganga of nærri honum eða ganga á eigið fé hans.

Ég vil líka spyrja ráðherrann um þær 400 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að komi úr ríkissjóði. Nú er það alveg skýrt í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og þriggja ára áætlunum að framlögum til samneyslunnar eru settar mjög stífar skorður. Ég geri ráð fyrir að þessar 400 millj. kr. séu innan þeirra ramma sem ríkisstjórnin hefur sett næstu þrjú árin. Vil ég inna ráðherrann eftir því hvort svo sé og af hvaða þætti samneyslunnar þessar 400 millj. kr. verða teknar, hvort þær komi úr málaflokki félagsmála og hvort þær muni bitna sérstaklega á einhverjum tilteknum málaflokkum, málefnum fatlaðra eða öðrum málaflokkum sem undir ráðuneytið heyra.

Hvað þak varðar á greiðslurnar sýnist mér að það sé sett fram til þess að auka þá pólitísku sátt sem verði um kerfið og að einhverju leyti væntanlega til að stemma stigu við tiltekinni misnotkun. Hver fjárhæðin á nákvæmlega að vera skal ég ekki segja um og þarf auðvitað að skoða. Ég held að það mikilvæga í því sé hins vegar að það sé alveg tryggt að þakið fylgi launaþróun því ég hygg að það sem fólk gjaldi almennt mestan varhuga við sé að settar séu tekjutengingar í velferðarkerfið sem síðan standi óbreyttar að krónutölu ár eftir ár. Þó þær kunni í fyrstu að sýnast sanngjarnar, þá eftir því sem árin líða fram og verðbólgunni vindur líka fram rýrni þær svo að raungildi að þær fari að bitna verulega á tekjum fólks. Ég held að það væri mest miður og kannski spurning um að tengja slíkt viðmið við launaþróun þannig að það sé alveg tryggt að það fylgi henni.

Hvað varðar þá þætti sem snúa að því að stemma stigu við misnotkun í kerfinu, lengra viðmiðunartímabil, að samrýma það skattkerfinu og aðra slíka þætti hygg ég, hæstv. forseti, að séu allir nokkuð til bóta. En ég treysti því að við munum í umfjöllun um málið í félmn. fá bæði góðan tíma og vönduð gögn til að rýna í og tryggja að málsmeðferð megi verða sem best verður á kosið.