Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 23:25:59 (6129)

2004-04-05 23:25:59# 130. lþ. 94.16 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[23:25]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem fram hefur farið um það mál sem er til umfjöllunar, breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlofssjóð.

Nokkur atriði hafa komið fram við umræðuna sem mér finnst rétt að bregðast við. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á að vissulega megi finna fleiri aðferðir en þá sem hér er lögð til varðandi hámarksfjárhæð greiðslu úr sjóðnum. Eins og hv. þm. nefndi hefði mátt hugsa sér að varðandi ákveðið hámark greiðslna gilti 80% hlutfallið en síðan gæti hlutfallið lækkað eftir því sem ofar drægi í tekjuskalanum. Það var vissulega ein þeirra aðferða sem starfshópurinn sem undirbjó þá tillögu sem hér liggur frammi í lagafrv. velti fyrir sér. Fleiri hugmyndir voru uppi á borðinu en niðurstaða hópsins var að leggja til við ráðherra sem ég legg svo til við Alþingi að fara þá raunverulega einföldu leið að sett verði á þak við tiltekna fjárhæð og þar með reynt að halda í einfaldleika kerfisins. En rétt er ábending hv. þm. um að fleiri leiðir kæmu vissulega til greina.

Hv. þm. Gunnar Birgisson spyr: Hvað ef útgjöld Fæðingarorlofssjóðsins verða enn meiri en gert er ráð fyrir í frv.? Það, hæstv. forseti, verður sjálfstætt umfjöllunarefni þegar og ef að því kemur. Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Gunnari Birgissyni og Pétri H. Blöndal, að ég tel að við megum frekar vænta sparnaðar umfram þær u.þ.b. 100 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að auknar aðhaldsaðgerðir skili. Ég tel að þar sé varlega áætlað og því miður kannski því það gefur tilefni til þess að gagnálykta, hæstv. forseti, um að misnotkunin í kerfinu sé talsvert mikil.

Hv. þm. Gunnar Birgisson telur einnig að með frv. sé auðvelda leiðin farin. Sínum augum lítur hver á silfrið, hæstv. forseti. Það má segja að allar leiðir geti verið hvort sem er torfærar eða auðveldar. Við veltum fyrir okkur fleiri leiðum en þeim sem hér eru lagðar til. Frumvarpið gerir ráð fyrir blandaðri leið, þ.e. að auka innstreymið í sjóðinn en líka að reyna að hefta útstreymið. Það hefði mátt sjá fyrir sér leið beinnar skattahækkunar, þ.e. hækkunar tryggingagjaldsins. Það var niðurstaðan að leggja það ekki til. Það hefði líka, hæstv. forseti, verið hægt að leggja til að gengið yrði lengra varðandi skerðingarákvæði í frv., lægra þak eða lægra hlutfall. En þetta var niðurstaðan og það er trú mín að með þeirri leið sem við leggjum til sé hvort tveggja gert, náð böndum á þetta mikla útstreymi úr sjóðnum en um leið varðveitt þau meginmarkmið laganna sem hv. þingmönnum hefur orðið tíðrætt um, þ.e. að tryggja barni samvistir við báða foreldra á fyrstu mánuðum æviskeiðsins og að auka jafnrétti í samfélagi okkar.

[23:30]

Hv. þm. Pétur Blöndal benti í máli sínu á að niðurstöður kjararannsóknarnefndar á undanförnum missirum sýndu meiri hækkun launa kvenna en karla. Ég tek undir með hv. þm. Það er mikið ánægjuefni. Ég hef, hæstv. forseti, leitt að því líkur að það kunni einmitt að vera ein afleiðing laganna sem við fjöllum hér um, að þau hafi undanfarin þrjú ár leitt það af sér að laun kvenna hafi hækkað meira en karla. Ef svo er þá er sannarlega til mikils unnið.

Hv. þm. Helgi Hjörvar spurði hvaða rannsóknir, úttektir og skýrslur lægju til grundvallar breytingum sem lagðar eru til í frv.? Því er til að svara, hæstv. forseti, að þar liggur fyrst og fremst fyrir reynslan af framkvæmd laganna. Sú reynsla liggur ekki síst hjá Tryggingastofnun ríkisins og við hana var haft samráð varðandi þær tillögur sem hér hafa verið lagðar fram, einkum og sér í lagi var leitað í þann reynslubanka sem þar hefur byggst upp þann tíma sem lögin hafa verið í gildi. Einnig liggja til grundvallar athuganir ríkisskattstjóra á framkvæmd laganna og á því hvaða líkur, hæstv. forseti, væru til að þetta kerfi hefði verið misnotað og þá með hvaða hætti.

Það er fyrst og fremst þetta tvennt sem hægt er að tala um að feli í sér rannsóknir eða úttektir til grundvallar þessum breytingum.

Hv. þm. spurði að hvaða leyti eða í hve miklum mæli forsjárlausir foreldrar hefðu nýtt sér þann rétt sem lögin tryggja þeim. Ekki hefur verið gerð sérstök úttekt á því, hæstv. forseti, en hins vegar hafa forsjárlausir foreldrar sjálfstæðan rétt með þessum lögum. Að því er varðar barnið sjálft er það réttur þess að fá að njóta samvista við bæði föður sinn og móður. Þess vegna var við setningu þessara laga, hæstv. forseti, lögð á það áhersla að forsjárlaust foreldri nyti réttar til fæðingarorlofs. Reynslan er sú að í einhverjum mæli nýta forsjárlausir foreldrar sér þann rétt. Það er vel.

Hv. þm. spyr hvað hafi nákvæmlega farið úrskeiðis á sínum tíma við mat á áætluðum kostnaði við framkvæmd þessara laga? Ég get, hæstv. forseti, ekki svarað því nákvæmlega. Ég get tekið undir með hv. þingmönnum sem hafa orðað það svo í þessari umræðu að út af fyrir sig sé fagnaðarefni að greiðslurnar úr sjóðnum skuli hafa orðið svo miklu meiri en áætlað var. Það er áhyggjuefni hvað varðar afkomu ríkissjóðs en það er fagnaðarefni út frá jafnréttissjónarmiðinu og þeim markmiðum sem Alþingi gekk út frá við setningu þessara laga á sínum tíma.

Ég tel, hæstv. forseti, eins og ég rakti í upphafsræðu minni, að skýringarinnar megi ekki síst leita í því að hlutfall þeirra feðra sem nýta sér rétt til fæðingarorlofs hefur á þeim tíma sem liðinn er frá því að lögin tóku gildi aukist úr 30% í 80%. Það er jafnvel hraðari framgangur heldur en þingheimur gerði sér vonir um á sínum tíma. Trúlegt þykir mér, hæstv. forseti, að þar liggi meginskýringin á því að framkvæmd þessara laga hefur reynst dýrari en áætlað var.

Hv. þm. spyr af hvaða þætti samneyslunnar þær 400 milljónir komi sem áætlað er að renni úr ríkissjóði til styrkingar kerfisins, hvort þar verði um að ræða skerðingu á málaflokkum félmrn. Því er til að svara, hæstv. forseti, að það er ekki gert ráð fyrir því. Það er ekki gert ráð fyrir því að þetta skerði framlög til annarra málaflokka ráðuneytisins.

Hv. þm. spurði einnig hvort treysta mætti því að það þak sem lagt er hér til að verði sett á hámarksgreiðslur úr sjóðnum fylgi tekjuþróun í samfélagi okkar. Með leyfi forseta, vil ég vitna til 4. gr. frv. sem hér um ræðir. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Fjárhæð hámarksgreiðslu skv. 3. mgr. og lágmarksgreiðslu skv. 6. mgr. kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta greiðslufjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar áðurgreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð hámarks- eða lágmarksgreiðslna skal félagsmálaráðherra breyta fjárhæðinni í reglugerð.``

Þetta eru, hæstv. forseti, viðlíka ákvæði og í lögum um atvinnuleysistryggingar og í því hefur falist, a.m.k. á undanförnum árum, að um áramót hefur félmrh. með útgáfu auglýsingar hækkað atvinnuleysisbætur um það sem nemur sama hlutfalli og almenn launaþróun í landinu hefur verið.

Ég tel, hæstv. forseti, að ég hafi þar með svarað þeim spurningum og hugleiðingum sem fram komu í máli hv. þingmanna við þessa umræðu.

Ég vil, hæstv. forseti, að lokum þakka fyrir þær undirtektir sem þetta mál fær á Alþingi. Ég þakka hv. þingmönnum þátttöku í umræðunni og ítreka að lokum, hæstv. forseti, ósk mína um að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.