Reynslulausn fanga

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 13:32:27 (6130)

2004-04-06 13:32:27# 130. lþ. 95.91 fundur 461#B reynslulausn fanga# (aths. um störf þingsins), ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Í upphafi vil ég taka fram að ég veit að þessi dagur á að vera tileinkaður utanríkismálum og vil ég því biðja hæstv. utanrrh. forláts á þessu inngripi mínu en ég tel hins vegar að eftirfarandi mál sé það brýnt að Alþingi eigi að ræða það örlítið í upphafi þingfundar.

Oft þarf hörmungar til svo að yfirvöld bregðist við. Í kjölfar skelfilegra líkamsárása undanfarna daga hefur nú komið í ljós alvarlegur galli á almennum hegningarlögum um reynslulausn. Brjóti einstaklingur sem er á reynslulausn af sér þarf samkvæmt núgildandi lögum að leiða hann aftur fyrir dómara í réttarhöldum og dæma hann fyrir nýja glæpinn áður en hægt er að setja hann aftur í fangelsi til að ljúka afplánun sinni fyrir fyrri dóminn. Þetta getur tekið of langan tíma eins og dæmin sýna.

Áður fyrr gátu Fangelsismálastofnun og dómsmrn. afturkallað reynslulausn ef aðili gerðist brotlegur við skilyrði hennar. Umboðsmaður Alþingis taldi slíkt fyrirkomulag hins vegar ekki vera í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu og þess vegna var lögunum breytt árið 1999. Hins vegar hefur verið bent á, m.a. af hálfu Jónatans Þórmundssonar, lagaprófessors í refsirétti, og Valtýs Sigurðssonar setts forstjóra Fangelsismálastofnunar, að fyrirkomulagið þarf ekki að vera svona. Þeir hafa bent á leiðir sem gætu tekið á þessum galla reynslulausnar, svo sem að leitað yrði eftir úrskurði dómara til að afturkalla reynslulausn sé rökstuddur grunur um að afbrot hafi verið framið á reynslutímanum.

Það er alveg ljóst að þegar menn brjóta skilyrði reynslulausnar verður að vera til fljótvirk leið til að bregðast við. Samf. er tilbúin að gera það sem til þarf til að lögunum verði breytt. Þó að skammt sé eftir af þinginu er Samf. viljug til að liðka fyrir málum á þingi eins og hún getur. Það er einfaldlega of mikið í húfi.

Mig langar því að lokum að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh. hvort hann sé tilbúinn á þessu þingi til að beita sér fyrir breytingu á lagaákvæðum um reynslulausn í þá átt að hægt sé að koma einstaklingi á reynslulausn aftur í fangelsi gerist hann brotlegur við skilyrði reynslulausnar.