Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 14:47:00 (6140)

2004-04-06 14:47:00# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei vitað að það væri barnaskapur að slíta barnsskónum. Ég hélt að það væri ágætt að þroskast. Ég hef þroskast mikið í starfi mínu sem utanríkisráðherra. Ég hef breytt um skoðun í ýmsum málum og sé veröldina á margan hátt öðruvísi en ég sá hana fyrr. (JÁ: Það fer ekkert á milli mála.) Nei, ég ætla að vona að það fari ekkert á milli mála. Ég ætla að vona að það hafi komið líka fyrir hv. þm., að fá nýja sýn á hlutina, sérstaklega þegar hann losnaði við Alþýðubandalagið sem ég held að hafi nú verið eitt mikilvægasta skrefið í þroskaferli hans.

Ég sagði ekkert um það, hv. þm., að þeir sem væru á móti væru ekki með. Ég talaði skýrt. Ég lýsti skoðunum mínum. Ég var ekki að lýsa skoðunum annarra og á engan hátt að gera lítið úr skoðunum annarra. Það var ég ekki að gera.

Hv. þm. kom og lýsti afstöðu Samf. í ýmsum málum. Það er gott, það er tilefni þessarar umræðu. Ég hélt að það væri kostur að tala nokkuð skýrt. Ég talaði mjög skýrt um hryðjuverkamenn. Það vill svo til að það er stefnumál al Kaída að útrýma Ísraelsríki. Ég sagði ekki að það væri skoðun þingmanna hér inni.

Hins vegar tala ýmsir því máli að rétt sé að reyna samningsleiðina við þessi öfgaöfl. Ég sagði ekki einasta orð um að sá aðili fyndist í þessum sal. Ég hef ekki trú á því. En þessi umræða er uppi, því miður.

Ég vildi að mögulegt væri að semja við þessa aðila. En hvernig er hægt að semja við aðila sem kjósa dauðann fram yfir lífið, sem telja að dauðinn sé meira virði en lífið sjálft? Það er hugsun þessara aðila. Ég var einfaldlega að lýsa þeirri skoðun minni að ég teldi enga von til að hægt væri að semja við slíkt fólk.