Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 15:10:50 (6143)

2004-04-06 15:10:50# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur og formanni utanrmn. að hún minntist á sendinefnd frá ráðgjafarþinginu í Sádi-Arabíu sem heimsótti hið háa Alþingi þann 29. mars sl. og að nefndarmenn og kannski formaður nefndarinnar hefðu tjáð henni að Sádi-Arabar væru harðlega á móti hryðjuverkum.

Ég ætla svo sem ekki að draga það í efa en ég vil þá líka að það komi fram og verði fært til bókar að ég hitti líka þá ágætu menn sem fulltrúi míns þingflokks og spurði þá m.a. um afstöðu Sádi-Araba til innrásarinnar í Írak. Það kom greinilega mjög skýrt fram í svörum þeirra ágætu manna frá Sádi-Arabíu að Sádi-Arabar eru mjög ósáttir við innrásina í Írak og eru alfarið á móti henni, og okkur, íslensku þingmönnunum, var tjáð með mjög skýrum hætti að Sádi-Arabar teldu að innrásin hefði leitt til þess að allt hefði farið í bál og brand í Miðausturlöndum, ástandið væri ískyggilegt, menn hefðu farið úr vondu yfir í miklu verra.

Ég taldi rétt að þetta kæmi fram. Það er nefnilega svo, frú forseti, að þó að maður sé á móti innrásinni í Írak þarf maður ekki sjálfkrafa að vera fylgjandi hryðjuverkum. Maður getur bæði verið á móti innrásinni í Írak og á móti hryðjuverkum. Við í Frjálsl. fyllum þann flokk.