Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 15:12:27 (6144)

2004-04-06 15:12:27# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Sólveig Pétursdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil kannski ekki alveg í hverju þetta andsvar fólst vegna þess að ég vék ekkert að afstöðu Sádi-Araba eða sendinefndar frá þeim í ræðu minni hvað varðar afstöðu þeirra til innrásarinnar í Írak. En það hefur auðvitað komið fram opinberlega í viðtali við formann þeirrar sendinefndar, að ég hygg, hvaða afstöðu þeir hafa í því máli.

Það er auðvitað svo að þegar hv. þm. reyna að tengja þessi alvarlegu og hræðilegu hryðjuverk við innrás Bandaríkjamanna í Írak þá er eins og menn velti ekkert fyrir sér fyrir hvað hryðjuverkasamtök eins og al Kaída standa og hvernig þeir rökstyðja glæpaverk sín. Það má velta því fyrir sér t.d. hvaða skýringar þeir hafa gefið á aðgerðum sínum í Afríku á sínum tíma þegar friðarferlið stóð sem hæst milli Ísraels og Palestínu. Ekki voru þeir að hjálpa til í því sambandi. Eða hvers vegna þeir voru að ráðast á saklausa ferðamenn í Balí, eða hvers vegna þeir áformuðu að ráðast á World Trade Center árið 1997 í Bandaríkjunum.

Mér finnst að hv. þm. ættu að halda því til haga að þetta eru glæpaflokkar sem skirrast einskis í að koma áætlunum sínum í framkvæmd og það skiptir í raun og veru engu máli hvaða afstöðu fullvalda ríki hafa í utanríkismálum, hvort sem er til innrásarinnar í Írak eða varðandi önnur mál. Ég vildi bara fá að koma þessu á framfæri, hæstv. forseti.