Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 15:46:11 (6152)

2004-04-06 15:46:11# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Gunnar Örlygsson:

Það er skiljanlegt að varnarsamningur milli Íslendinga og Bandaríkjamanna sé í uppnámi. Kalda stríðið er að baki og umhverfið harla ólíkt því sem áður var í pólitískum skilningi á sviði alþjóðamála.

Hryðjuverkaógnin kallar á nýja taktík í hernaðarmálum um allan heim. Því er skiljanlegt að breytt pólitískt umhverfi hafi áhrif á afstöðu Bandaríkjamanna varðandi umsvif og starfsemi Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Íslendingar verða að umbera þessar breytingar og líta á þær sem tækifæri frekar en ógn. Mikilvægt er að þær breytingar sem fram undan eru verði samvinnuverkefni milli Íslendinga og Bandaríkjamanna en ekki pólitískt þrætuepli sem engu skilar til íslensku þjóðarinnar.

Sá tvíhliða samningur sem í gildi er milli ríkjanna mun taka breytingum. Í þessum breytingum felast óneitanlega tækifæri fyrir Íslendinga. Saga þjóðanna minnir á mikilvægi þess að varnir landsins verði áfram tryggðar að því leyti sem nýtt pólitískt landslag í alþjóðamálum knýr á um.

Ógnarástand ríkir í atvinnumálum á Suðurnesjum. Þar er helsti áhrifavaldurinn uppsagnir á starfsfólki varnarliðsins og starfsfólki þjónustufyrirtækja sem starfað hafa í áranna rás fyrir varnarliðið. Um árabil hefur héraðið setið eftir í byggðastefnu Íslendinga, fyrst og fremst vegna veru varnarliðsins þar síðustu áratugi. Það er mikilvægt fyrir efnahag héraðsins að fá aðgengi að húsakosti sem varnarliðið býr yfir á Keflavíkurflugvelli og hefur ekki í hyggju að nýta áfram sökum þeirra breytinga sem í nánd eru.

Fyrst og fremst verður þó íslensk þjóð að fá vitneskju um framvindu mála og fá á hreint hvaða húsakostur og búnaður stendur til boða til frekari uppbyggingar á ýmiss konar iðnaði í framtíðinni. Í annan stað er mjög mikilvægt að Bandaríkjamenn opni á viðskiptatækifæri. Til dæmis yrði viðhald á litlum hluta af flugvélakosti NATO Íslendingum mjög dýrmætt verkefni. Stuðningur af því tagi mundi að miklu leyti milda þann sögulega stirðleika sem kominn er á í samskiptum þjóðanna og mundi vissulega stuðla að sátt um nýjan og breyttan varnarsamning milli þjóðanna.

Ég furða mig á því að hæstv. utanrrh. skuli ekki hafa minnst einu orði á þær miklu breytingar og uppsagnir sem orðið hafa hjá varnarliðinu á síðustu missirum. Ekkert í ræðu hans vék að framtíðarlausnum á þeim vanda sem hefur skapast vegna breytinga hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Íslenska og bandaríska þjóðin eiga góða og langa sögu saman. En heilbrigt vinasamband er ekki yfir gagnrýni hafið. Íslensk þjóð er herlaus og friðelskandi þjóð. Það kom því ekki á óvart þegar nýlegar skoðanakannanir lýstu eindreginni afstöðu íslensku þjóðarinnar gagnvart innrás Bandaríkjamanna í Írak. Langstærstur hluti þjóðarinnar var andsnúinn innrás Bandaríkjamanna og þátttöku Íslendinga á lista hinna staðföstu þjóða. Mistök ráðamanna íslensku þjóðarinnar á síðasta ári voru þau stærstu á sviði utanríkismála í sögu þjóðarinnar.

Hæstv. forseti. Almenn útþensla utanríkisþjónustunnar hefur verið mjög mikil á undanförnum árum. Árið 1996 voru útgjöld utanrrn. 2 milljarðar kr. samkvæmt ríkisreikningi en voru orðnir 5,5 milljarðar á síðasta ári. Aukningin á þessum sex árum er um 170% en vísitala neysluverðs hækkaði á sama tíma um 26%. Sendiráðum Íslands fjölgaði úr 8 í 14. Stofnkostnaður við sendiráð Íslands í Japan var 700 millj. kr. Árlegur rekstrarkostnaður er þar 100 millj. kr. Útgjöld til utanríkismála hafa hækkað verulega og sendiráðum hefur fjölgað.

Jack Straw, utanríkisráðherra Breta, hefur lýst því yfir að ætlun þeirra sé að draga verulega úr starfsemi 40 sendiráða erlendis. Stefnt er að því að í þeirra stað komi aðeins einn maður með fartölvu eða einn fartölvusendiherra á hverjum stað. Breska utanríkisþjónustan gerir sem sagt ráð fyrir því að einstakir menn, sem tengdir verði London með tölvupósti og netinu, komi í stað heilla sendiráða í einhverjum þeirra 153 ríkja sem nú eru með breskt sendiráð. Breskir embættismenn tilgreindu ekki hvaða sendiráð væru líkleg að afleggja í núverandi mynd en breska dagblaðið Sunday Telegraph nefndi m.a. Nýja-Sjáland, Máritíus, Ekvador, Belís og Ísland.

Með þessum aðgerðum er tekið mið af nýju mati á mikilvægi breskra sendiráða víða um heim með sérstöku tilliti til baráttu gegn hryðjuverkum, ólöglegum innflytjendum og einnig með tilliti til annarra hagsmuna Breta, svo sem olíuflutninga.

Skömmu fyrir síðustu áramót tilkynnti danska ríkisstjórnin að hún hefði ákveðið að draga verulega úr útgjöldum til utanríkisþjónustunnar og að ríkisstjórnin hygðist leggja niður 130 stöður á næstu tveimur árum og jafnframt leita leiða til að lækka húsnæðiskostnað. Áætlað var að spara um 1.700 millj. ísl. kr. með þessum aðgerðum. Þegar þetta var tilkynnt höfðu Danir þegar lagt niður 10 sendiráð og fækkað stöðugildum um 120. Sendiráðum okkar hefur hins vegar verið fjölgað talsvert á undanförnum árum og sum þeirra hafa verið verulega umdeild vegna óheyrilegs kostnaðar, svo sem sendiráð okkar í Japan.

Við Íslendingar höfum gjarnan horft til nágranna- og vinaþjóða okkar varðandi utanríkismál og ættum að geta dregið einhvern lærdóm af aðgerðum þeirra. Lítil þjóð ætti að sýna meira hóf en þær þjóðir sem hér hefur verið vitnað til. Það er full ástæða til að ríkisstjórnin kanni rækilega sparnaðarmöguleika í utanríkisþjónustu okkar.

Ein mikilvægasta ákvörðun í utanríkismálum sem Íslendingar hafa tekið er vafalaust innganga Íslands í varnarbandalag vestrænna ríkja, NATO, árið 1948. Þá settu Íslendingar eitt ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir aðildinni, þ.e. að Ísland muni aldrei taka beinan þátt í hernaðaraðgerðum og aldrei fara með ófriði á hendur öðrum þjóðum. Að þessu skilyrði gengu aðrar þjóðir í bandalaginu umyrðalaust.

Ríkisstjórnin þverbraut þetta skilyrði sjálf með því að skipa Íslandi í bandalag hinna staðföstu þjóða sem stóð að árásinni á Írak. Forsrh. og utanrrh. tóku þessa afdrifaríku ákvörðun án minnsta samráðs við löggjafarsamkundu þjóðarinnar.

Í 24. gr. þingskapa Alþingis Íslendinga segir, með leyfi forseta:

,,Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.``

Varla finnst nokkur maður hér á landi sem telur aðild okkar að hernaði í Írak til minni háttar utanríkismála. Hver var réttlætingin sem færð var fyrir þeirri kúvendingu á stefnu Íslendinga í utanríkismálum sem varð með að ríkisstjórnin ákvað að styðja árásarstríð á Írak? Það voru gereyðingarvopnin sem áttu að vera í Írak. Þau hafa hvergi fundist og staðhæfingar um tilvist þeirra reyndust úr lausu lofti gripnar.

Robin Cook, fyrrverandi forseti breska þingsins, sagði af sér vegna þessa máls. Hann hefur sagt að ekkert hafi bent til þess að í Írak væru önnur gereyðingarvopn en þau sem framleidd voru af verksmiðjum sem Bretar settu upp fyrir 20 árum. Richard Clarke, fyrrverandi yfirmaður baráttu Bandaríkjastjórnar gegn hryðjuverkum til áratuga, sakaði Bush um að hafa ekki tekið hættuna sem stafaði af al Kaída nægilega alvarlega áður en ósköpin dundu yfir þann 11. september 2001 og að Bush hefði stórskaðað baráttuna gegn hryðjuverkum. Wesley Clark, fyrrverandi yfirmaður NATO og einn þeirra sem tóku þátt í forkosningabaráttu demókrata fyrir forsetakosningarnar, tók í sama streng og sagði að Bush hefði aldrei átt að gera Íraksstríðið að hluta af baráttu gegn hryðjuverkum.

Hæstv. forseti. Ekkert hefur fundist til að réttlæta þá hörðu innrás sem dregið hefur þúsundir saklausra borgara til dauða og alið af sér nýja kynslóð stórhættulegra hryðjuverkamanna.

Þegar kosningaúrslit á Spáni lágu fyrir sýndu forustumenn ríkisstjórnar Íslands þá ósmekkvísi að gefa í skyn að þau úrslit væru sigur hryðjuverkamanna yfir lýðræðinu og að með skelfilegum fjöldamorðum á almenningi hefði hryðjuverkamönnum tekist að snúa úrslitum kosninganna sér í hag. Nýkjörinn forsætisráðherra Spánar, Jose Luis Rodriquez Zapatero, orðaði það svo að ósiðlegt væri að gefa slíkt til kynna, sem það vissulega er. Niðurstaða kosninganna á Spáni var skýr. Stjórnmálaflokkur sem var alfarið á móti innrásinni í Írak vann stórsigur. Enn fremur misbauð Spánverjum að ríkisstjórn Aznars skyldi reyna að kenna aðskilnaðarsamtökum Baska, ETA, um árásina þótt fyrir lægju vísbendingar um að hryðjuverkasveitir múslima hefðu verið að verki. Kosningarnar á Spáni voru því umfram allt sigur lýðræðisins.

Á þingi Norðurlandaráðs í Ósló síðasta haust bar færeyska landsstjórnin fram ósk um að fá aðild að Norðurlandaráði og norrænu ráðherranefndinni eins og sjálfstæðar þjóðir hafa nú. Þetta gerði landsstjórn Færeyja í fullu umboði lögþings Færeyja sem samþykkti einróma tillögu um þetta í mars á þessu ári. Ríkisstjórn Íslands lýsti þeirri afstöðu að Íslendingar mundu ekki blanda sér í þetta mál á meðan Danir og Færeyingar ættu í viðræðum.

Færeyingar eru fremsta vinaþjóð Íslendinga meðal norrænna þjóða. Okkur ber að styðja þá með ráðum og dáð í baráttu þeirra fyrir auknu sjálfstæði, sérstaklega þegar einróma stuðningur lögþings Færeyja liggur fyrir eins og í þessu tilfelli. Þingflokkur Frjálsl. andmælir þeirri afstöðu sem ríkisstjórn Íslands hefur tekið til aðildar Færeyinga og telur að Íslendingar hefðu átt að lýsa yfir fullum stuðningi við umsókn frænda okkar og vina um aðild að Norðurlandaráði. Okkur ber að styðja þá til frelsis og fullveldis. Aðild að Norðurlandaráði er mikilvægur áfangi í sjálfstæðisbaráttu Færeyinga.

Hæstv. forseti. Þingflokkur Frjálsl. harmar þá utanríkisstefnu sem ríkisstjórn Íslands lagði á íslenska þjóð á síðasta ári. Íslensk þjóð á aldrei að fara með ófriði á hendur öðrum þjóðum.