Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 16:27:25 (6159)

2004-04-06 16:27:25# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Hér kemur upp hv. þm. Samf., Þórunn Sveinbjarnardóttir, og tekur undir með öðrum hv. þingmönnum Samf. Þeim finnst málflutningur minn að því er varðar hryðjuverkastarfsemi í heiminum vera með ólíkindum, að engin álitamál séu uppi og ekkert um að ræða, sagði hv. þm., það sé bara búið að fullyrða að svona sé þetta.

Er ekki mikilvægt í orðræðu milli aðila að skoðanir þeirra sem taka þátt í orðræðunni séu skýrar? Mér finnst það ekki mjög skýrt sem þingmenn Samf. segja í þessum efnum. Ég átta mig ekki alveg á því hvað þeir vilja.

Þeir segja: Nei, við viljum ekki samninga. Við viljum ekki ganga til neins slíks samstarfs við slíka aðila enda eru þetta glæpamenn. Auðvitað er það rétt. Er það ekki sama niðurstaðan og ég komst að í ræðu minni? Ég átta mig því ekki á því hvað þingmenn Samf. vilja gera í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi. Væri ekki nær að hv. þingmenn kæmu upp og færu yfir það lið fyrir lið?

Ég heyrði að hv. þingmenn Samf. telja að það verði gífurleg breyting í Bandaríkjunum ef hugsanlega yrði kosinn þar nýr forseti. Ég held að það sé ekki rétt. Ég held að það verði afskaplega litlar breytingar og það séu miklir draumórar að þar verði grundvallarbreyting á, t.d. í sambandi við Írak.