Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 16:43:53 (6164)

2004-04-06 16:43:53# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[16:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi aðeins fá að þakka hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur fyrir það sem hún sagði um þátttöku Íslands í Norðurskautsráðinu. Okkar fólk hefur lagt þar mikið af mörkum og unnið gífurlega gott starf sem hefur aukið álit Íslands á þessum vettvangi og verið okkur til sóma. Mér er ekki kunnugt um neina afstöðubreytingu hjá Bandaríkjamönnum, því miður, í því máli sem hún minntist á. Ég vil hins vegar taka það fram að Bandaríkjamenn hafa smátt og smátt sýnt þessu samstarfi meiri áhuga, bæði af hálfu stjórnvalda og jafnframt af hálfu bandarískra þingmanna. Það hefur loðað dálítið við að hér væri um mál að ræða sem varðaði fyrst og fremst Alaska en ekki Bandaríkin í heild sinni en auðvitað eru málefni norðurskautsins og norðursins málefni sem varða allan heiminn. Þess vegna hefur það líka verið keppikefli hjá okkur Íslendingum að ná meira samstarfi við Evrópuþjóðir um þessi mál og menn eru að verða betur meðvitaðir um hvað það sem þarna er að gerast skiptir heimsbyggðina miklu máli eins og kom greinilega fram í ræðu hv. þingmanns.

Við munum halda áfram að vinna að þessum málum, m.a. því sem hún nefndi í ræðu sinni að því er varðar Bandaríkjamenn. Við höfum fengið jákvæð viðbrögð að mörgu leyti af hálfu Bandaríkjamanna í þessu samstarfi sem ég tel ástæðu til að þakka fyrir en ég veit ekki um neina afstöðubreytingu í því máli sem hún nefndi sérstaklega.