Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 16:47:52 (6167)

2004-04-06 16:47:52# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[16:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst nokkuð til um það þegar hv. þm. bar mikið lof á forustumenn Íslendinga í þessum samtökum og þá sem fyrir okkur tala. Mér sýnist að e.t.v. hafi þar verið um oflof að ræða. Það hefur komið fram í orðaskiptum hæstv. utanrrh. og hv. þingmanns að hæstv. utanrrh. hefur ekki hugmynd um að þarna hafi orðið stefnubreyting af hálfu Bandaríkjastjórnar. Mér finnst með ólíkindum ef þetta mál sem hugsanlega kann mestu að varða um framtíð Íslands verður ekki tekið upp af hálfu hæstv. utanrrh. eða þá að hans menn á þessum vettvangi hafi ekki gert honum viðvart um þetta. Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða, þegar Bandaríkjastjórn beinlínis leggst gegn því að réttum upplýsingum sé komið til skila og sömuleiðis að á framfæri sé komið því sem bestu vísindamenn sem voru kallaðir til ráðagerða við Norðurskautsráðið telja að eigi að gera til að reyna að vinna gegn þessum breytingum. Þar er beinlínis verið að vinna gegn hagsmunum norðurskautsins og okkar sem byggjum undir það.

Ég vil þess vegna spyrja líka hv. þingmann: Hvernig stendur á því að svo hljótt hefur farið um þetta? Með hvaða hætti brugðust fulltrúar Íslands í Norðurskautsráðinu við þessu? Enn spyr ég hana: Hvernig má það vera að hæstv. utanrrh. hafi ekki orðið var við þetta?