Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 17:02:38 (6171)

2004-04-06 17:02:38# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. formaður utanrmn. gæti vaknað einn góðan veðurdag og litið út um gluggann og séð að hér væri varnarlaust land, þ.e. hinn bandaríski her gæti verið farinn. Að því leyti og varðandi þá þróun sem við sjáum í þessum málaflokki tel ég það vera ábyrgðarhluta að útiloka ekki neitt varðandi varnarsamstarf Íslendinga. Að mínu viti er alveg ljóst að við munum ekki tryggja okkar eigin varnir sjálf. Að mínu viti eigum við ekki að stofna íslenskan her og að mínu viti tel ég að við þurfum að tryggja varnir okkar í samvinnu við bandalagsþjóðir okkar. Ef það eru ekki Bandaríkin þá þurfum við að leita annað. Að sjálfsögðu kemur Evrópusambandið þar til greina og í rauninni er sá kostur augljós að mínu viti. Við sjáum að samstarf Evrópusamstarfsins í utanríkis- og varnarmálum er sífellt að taka breytingum og það er að þróast og við megum ekki loka augunum fyrir slíkum möguleika. Þar er einfaldlega of mikið í húfi.

Ef við gengjum í Evrópusambandið á morgun mundum við hugsanlega ekki mæta nákvæmlega þeim sömu varnarskuldbindingum og Bandaríkjaher gerir núna en við vitum ekki hvernig framtíðin liggur. Ég held að það sé lykil\-atriði að menn eigi ekki að vera svo ákafir í andstöðu sinni við aðild Íslands að Evrópusambandinu að þeir neiti að skoða jafnmikilvægan þátt og hugsanlegt varnarsamstarf við Evrópusambandið. Það eru einfaldlega ekki allt of margir möguleikar opnir ef Bandaríkjamenn hverfa héðan á brott. Ég held að hv. þm. Sólveig Pétursdóttir og ég séum sammála um að við teljum að landið geti ekki verið varnarlaust. Við þurfum að tryggja varnir okkar með einhverjum hætti og aðild og samstarf við Evrópusambandið á þessu sviði gæti hugsanlega verið sú lausn. Ég hvet hana því sem formann utanrmn. að skoða þann möguleika vegna þess að við sjáum hvernig þróunin er í Keflavík. Herinn virðist vera að hverfa hægt og rólega. Við vitum ekki hvernig framtíðin verður. Við vitum ekki hver niðurstaðan verður í samningaviðræðunum en við þurfum að vera viðbúin öllu og það er lykilatriði.