Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 17:30:29 (6178)

2004-04-06 17:30:29# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[17:30]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði ekki að réttindi kvenna hefðu verið mikil í Írak. Ég sagði einungis að kannski hefðu þau verið mest ef borið væri saman við réttindi kvenna í öðrum arabaríkjum.

Frú forseti. Það vill þannig til að konum hefur verið nauðgað, og konum er nauðgað, í stríði. Konum var nauðgað í Írak og konum er enn nauðgað í Írak. Það hefur ekki breyst, því miður, við innrás Bandaríkjamanna, Breta og stuðningsríkja þeirra í Írak.

Það sem vonda samviskan okkar snýst um hér er auðvitað að Íslendingar studdu þetta árásarstríð, þetta ólögmæta árásarstríð, fóru á svig við þær þjóðir sem ég hefði viljað að við tækjum okkur til fyrirmyndar, neituðu að vera með Frökkum, Þjóðverjum og öðrum þjóðum sem sögðust aldrei mundu styðja þessa íhlutun. Okkur liði allt öðruvísi ef íslensk stjórnvöld hefðu staðið með þeim þjóðum en ekki verið taglhnýtingur Bandaríkjamanna sem eru með heimsveldisdrauma sem engu samrýmast.

Niðurlæging okkar og skömm er fólgin í því að íslenska ríkisstjórnin fylgdi Bandaríkjamönnum og Bretum að málum, lagðist svo lágt að fara í fótspor þeirrar ríkisstjórnar sem herskáust er á Vesturlöndum. Það er það sem við sitjum uppi með og gerir það að verkum að við höfum blett á samviskunni. Það er það sem gerir okkur sem hér erum að tala og gagnrýna hæstv. utanrrh. öskureið í hans garð. Við hefðum átt að standa vörð um önnur gildi, standa með öðrum þjóðum en þeim sem íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um að við stæðum með.