Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 17:50:06 (6181)

2004-04-06 17:50:06# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[17:50]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir að bregðast við þessari spurningu minni og skýra það atriði af því að það óneitanlega stakk mig þegar mér var af hv. fyrirspyrjanda þeirrar fyrirspurnar sem ég ræddi um áðan, Jóni Gunnarssyni, sýndur þessi orðalagsmunur. Margir töldu að viðræðurnar væru kannski á efnislegra stigi og lengra komnar en staðan er þar sem allt hefur setið fast frá því fyrir áramót.

Í því samhengi vildi ég beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvort staðan sé raunverulega sú að það muni ekkert gerast í viðræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna um varnarsamstarfið fyrr en eftir kosningar í Bandaríkjunum í haust. Er staða málsins einfaldlega sú að hugur repúblikanastjórnarinnar í Bandaríkjunum hafi augljóslega staðið til þess að draga sig út úr varnarsamstarfinu hérna og lágmarka þann viðbúnað sem hér er? Er einfaldlega komið það nálægt kosningum í Bandaríkjunum að ekkert muni gerast?

Það er mikil spenna í kosningunum eins og við vitum, miklar deilur í Bandaríkjunum um 11. september og vitneskju stjórnmálamanna þar um stöðu mála og hvaða upplýsingum menn bjuggu yfir þegar þessi voðaverk skullu á turnunum þann 11. september 2001. Mikið uppnám er í bandarískum stjórnmálum sem því fylgir augljóslega og aftur mikil fleygiferð á frambjóðanda demókrata, John Kerry, og ljóst að fram undan er löng og harkaleg kosningabarátta þar sem tekist verður á um grundvallarmál bandarískra stjórnmála. Telur hæstv. ráðherra það ekki raunveruleikann í málinu að ekkert gerist í því fyrr en eftir kosningar í haust? Er það ekki bara sú staða sem við stöndum frammi fyrir og sá napri veruleiki sem Íslendingar þurfa að sætta sig við?