Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 17:52:18 (6182)

2004-04-06 17:52:18# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[17:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka það skýrt fram að afstaða Bandaríkjamanna hefur verið skýr að því leytinu til að þeir vilja virða varnarsamstarf við Ísland og það er ekki ætlun þeirra að stökkva frá því með nokkrum hætti. Þetta hafa þeir alltaf tekið skýrt fram í öllum samtölum.

Hins vegar hefur ekki enn sem komið er verið samstaða um það hvaða varnarviðbúnaður sé nauðsynlegur. Ég tel líklegra en áður að Bandaríkjamenn muni ekki taka einhverja einhliða ákvörðun í þessu sambandi, eins og því miður kom fram skömmu fyrir kosningar á Íslandi sl. vor. Ég get ekki metið það hvenær þessum viðræðum verður haldið áfram og ætla ekki að spá um það frekar. Ætlunin var að það gerðist fljótlega eftir áramót. Það hefur ekki gerst. Það var líka ætlunin að það gæti gerst núna á vormánuðum og það hefur samt ekki gerst. Þetta er hins vegar mál sem mun ekki hlaupa frá okkur og það mun ekkert hlaupa frá okkur við kosningar í Bandaríkjunum. Það er jafnnauðsynlegt að ræða það sama hvaða forseti mun verða við völd að loknum næstu kosningum.

Eftir því sem nær dregur kosningum er ríkisstjórn Bandaríkjanna upptekin af því sem er að gerast á heimavelli og beinir að sjálfsögðu athyglinni meira að því. Hvort það muni gerast í þessu máli vil ég ekkert spá um.

Okkur er ekkert að vanbúnaði að halda þessum viðræðum áfram svo fljótt sem auðið er og erum ekki að óska eftir því að það dragist.