Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 17:54:31 (6183)

2004-04-06 17:54:31# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[17:54]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin en það er ljóst að ansi mikið ber í milli í viðhorfum íslenskra stjórnvalda og aftur bandarískra því að forustumenn Íslendinga og íslensku ríkisstjórnarinnar hafa sett fram ansi skýr skilyrði um hvað þeir telji vera lágmarksviðbúnað á Keflavíkurflugvelli til að grunnur sé áfram undir varnarsamstarfinu og það felist í ákveðnum loftvörnum o.s.frv. Maður hefur ekki orðið var við nokkurn einasta vilja núverandi stjórnvalda í Bandaríkjunum til að koma til móts við kröfur okkar Íslendinga og þess vegna hafa bráðum fjórir mánuðir, að því er virðist, liðið frá því að síðast var hreyft við málinu með einhverjum raunverulegum hætti.

Það sem ég átti við, frú forseti, með því hvort lítið mundi gerast fyrr en eftir kosningar í Bandaríkjunum í haust var einmitt fyrst og fremst að það er óvenjumikil spenna í bandarískum stjórnmálum þessi missirin og því hljóta kraftar stjórnvalda þar að beinast mikið til inn á við þar sem þau ár sem liðin eru frá því að síðast var kosið í Bandaríkjunum hafa ekki orðið til þess að menn hafi nýtt tímann til að endurnýja varnarsamstarfið við t.d. okkur Íslendinga. Allt rak þetta á reiðanum og lítið gerðist þó að kannski hefði verið eðlilegast að hreyft hefði verið við þessum málum fyrir 1--2 árum. Það gerðist ekki.

Það er napur veruleiki fyrir þá sem eiga allt sitt undir þessu að bíða í óvissunni. Það er skárra að vita hvað verður þó að illt sé á ferðinni fyrir fólkið. Óvissan er verst, og ekki síst í því ljósi spurði ég hæstv. utanrrh. hvernig hann mæti stöðuna í viðræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna. Það var akkúrat vegna þess að óvissan er vond, bæði fyrir þá sem hugsa um þetta í varnarpólitísku samhengi og eins þá sem eiga allt sitt undir varnarsamstarfinu.