Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 17:56:46 (6184)

2004-04-06 17:56:46# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[17:56]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína hversu vongóður hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson var um það að Íslendingar fengju undanþágu frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sæktu þeir um aðild að því og vísaði, máli sínu til stuðnings, til Evrópuskýrslu Samf. sem unnin var af Árna Páli Árnasyni lögfræðingi, eftir því sem ég best veit.

Síðasta sumar fjallaði Franz Fischler, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, um þessi málefni á fundi í Háskólanum í Reykjavík og þar sagði sjávarútvegsstjórinn útilokað að Íslendingar gætu gengið í Evrópusambandið og jafnframt haldið fullum yfirráðum yfir auðlindinni innan 200 mílna efnahagslögsögunnar. Enn fremur útilokaði Fischler varanlegar undanþágur fyrir Ísland frá sjávarútvegsstefnu sambandsins og jafnframt hugmyndir um að lögsaga Íslands yrði sérstakt stjórnsýslusvæði sem lyti stjórn Íslendinga. Í sama streng taka t.d. lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor og prófessor í Evrópurétti, og Óttar Pálsson í nýlegri skýrslu um málið.

Ég tel ljóst með vísan til þessara ummæla að ef Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu hefði sambandið algerlega í hendi sér hvaða reglur giltu um ákvörðun um heildarafla, veiðirétt, fiskveiðisamninga við ríki utan sambandsins, veiðarfæri, flotastærð, fjárfestingar, markaðsmál og fleira til. Ég er ekki jafnvongóður og hv. þingmaður um að ef við Íslendingar sæktum um aðild fengjum við þær undanþágur sem nefndar eru frá sjávarútvegsstefnunni. Ég tel reyndar að það sé enginn grundvöllur fyrir Íslendinga til að íhuga aðildarumsókn. Maður hefur tendens til að taka meira mark á sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins og lagaprófessornum en Árna Páli Árnasyni lögfræðingi.