Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 18:45:17 (6194)

2004-04-06 18:45:17# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[18:45]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson talaði um að mikil stefnubreyting hefði átt sér stað á Íslandi þar sem við höfum tekið ákvarðanir um að taka þátt í árásum á annað ríki.

Það er út af fyrir sig rétt að við höfum gert það. Það var í Bosníu og það var vegna Kosovo. Ég hef staðið í þeirri trú að Samf. hafi stutt það. Ef til vill hef ég misskilið það. (Gripið fram í.) Við studdum það að Atlantshafsbandalagið færi inn í Kosovo og gerði árás á Belgrad. Við studdum það. Við studdum að Atlantshafsbandalagið færi inn í Bosníu. Við hefðum getað beitt neitunarvaldi innan Atlantshafsbandalagsins í því skyni. Áttum við að gera það?

Að því er varðar Írak studdum við ákvörðun annarra. Á þessu er grundvallarmunur sem hv. þm. Samf. ættu að skilja. Við vorum ekki beinir þátttakendur í þeirri ákvörðun. Við þurftum ekki eins og forsrh. Bretlands, Tony Blair, að taka þá ákvörðun að senda fólk þar inn. Það gerðum við ekki. Við studdum hins vegar ákvörðun okkar bandalags- og vinaþjóða sem hafa verið nánustu bandamenn Íslands í öryggis- og varnarmálum frá stofnun lýðveldisins. En það var ekki ákvörðun okkar að fara þarna inn. Það var hins vegar ákvörðun okkar að vera með í því að taka þá ákvörðun að við færum inn í Bosníu og að því er varðar Kosovo.