Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 19:35:53 (6206)

2004-04-06 19:35:53# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[19:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi ekki að sitja hjá í alþjóðamálum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að vera boðberar friðar og ég tel að við sýnum það með virkum hætti með því að efla friðargæslu okkar, með því að taka virkari þátt í starfi á Balkanskaga, í Bosníu, Kosovo og Afganistan. Og með því að efla þróunarstarf okkar gerum við það sem boðberar friðar, mannréttinda og að menn vinni á grundvelli laga.

Við höfum verið að efla utanríkisþjónustu okkar, við höfum verið að efla þátttöku okkar á sviði utanríkismála. Það er alveg ljóst að fyrr á árum þótti Íslendingum eðlilegt að sitja hjá, að vera ekki virkir þátttakendur í alþjóðastarfi. Það var t.d. ekki talið rétt fyrir Ísland að sækjast eftir því að vera aðili að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eins og önnur Norðurlönd. Nú er um það samstaða á Alþingi að við gerum það. Ég hef upplifað það svo að það sé afstaða Alþingis að við eigum ekki að sitja hjá og að við eigum að vera virkir þátttakendur í alþjóðastarfi. Það er sú stefna sem er í framkvæmd í utanríkismálum.

Auðvitað er alveg ljóst að þar byggjum við á gömlum meiði og gömlum grunni og þar hafa margir komið að. Mér þykir leitt ef einhverjum hefur dottið í hug að ég væri með því á einhvern hátt að sverta minningu þeirra manna sem hafa gengið fram fyrir skjöldu til að gæta hagsmuna Íslands á undanförnum áratugum.