Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 19:38:13 (6207)

2004-04-06 19:38:13# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[19:38]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem ekkert verið að sverta menn þó að þeim sé líkt við börn. Það er frekar að sýna að þeir hafi hreint og gott hjarta.

Ég er ósammála hæstv. utanrrh. um að við höfum setið hjá í utanríkismálum á undanförnum árum og áratugum og tel það bara afar ósanngjarnt. Ég veit ekki betur en að Íslendingar hafi á vissan hátt leitt umræðuna í hafréttarmálum til dæmis. Og í þeim málum sem við höfum haft bolmagn til að fylgja eftir höfum við ekki dregið af okkur á undanförnum áratugum. Það er því engan veginn sanngjarnt af hæstv. utanrrh. að segja að við höfum setið hjá. Við höfum beitt okkur og tekið þátt en við höfum ekki gert það á þeim nýju forsendum að fylgja eftir hernaðarítökum, fylgja eftir þeim aðilum á vettvang sem beita hernaði gagnvart öðrum þjóðum í lögleysu. Það er breytt stefna en ég tel það ekki vera til að stæra sig af. Og ég tel einmitt þau lokaorð hæstv. utanrrh. í ræðu sinni þar sem hann er að brigsla, ég veit ekki hvaða stjórnmálamönnum hinnar íslensku þjóðar, um heimóttarskap eða steigurlæti, ég veit ekki hvort það er fyrri utanríkisráðherrum, en mér finnst þau orð ekki heldur passa inn í ræðu hæstv. utanrrh.

Ég ítreka að stefna okkar á að byggjast á friði og að við nálgumst alþjóðlegt samstarf við aðrar þjóðir og þátttöku okkar á alþjóðavettvangi á grundvelli friðar og friðarboðskapar.

Ég ítreka svo spurningu mína til hæstv. utanrrh., ef hann getur komið því við í lokaræðu sinni, ef hann á þess kost, um samninginn við Evrópska efnahagssvæðið um viðskipti með dýraafurðir.