Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 19:41:14 (6208)

2004-04-06 19:41:14# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[19:41]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla að nýta mér það tækifæri að koma aftur í pontu, enda náði ég ekki að klára ræðu mína fyrr í dag.

Við eigum ekki að sitja hjá var sagt hér áðan. Ég held, hæstv. forseti, að það sé enginn í þessum sal þeirrar skoðunar að við eigum að sitja hjá. Það er einfaldlega ekki kostur í hnattvæddu alþjóðasamfélagi að ríki sitji hjá. Það er liðin tíð. Okkur greinir hins vegar á um leiðirnar sem fara eigi að settum markmiðum og stundum greinir okkur jafnvel á um markmiðin. Það sem þingmenn hafa aðallega gert athugasemdir við í dag, það sem ég hef heyrt til og hef ég setið og hlustað held ég á næstum allar ræðurnar, er í raun sú pólarisering, ef þannig má að orði komast, sem sett er fram í ræðu hæstv. utanrrh., t.d. í umræðunni um eðli Evrópubúa, og þá líklega gegn eðli Bandaríkjamanna eða einhverra annarra, hið góða gegn hinu illa, þar sem hlutirnir eru málaðir nokkuð einföldum, skýrum litum, hvítu og svörtu. Það hefur einnig verið nefnt.

Við eigum heldur ekki að tala þannig, hæstv. forseti, af því það þjónar engum tilgangi. Veruleikinn og staða alþjóðastjórnmálanna er miklu flóknari en svo að við getum leyft okkur og hvað þá hæstv. utanrrh. að stilla málum upp með þeim hætti. Þess vegna hefur náttúrlega sá hluti ræðu ráðherrans sem fjallaði um utanríkisstefnu ríkisstjórnar Íslands með þessum hætti vakið upp fleiri spurningar en hann hefur nokkurn tímann svarað. Og yfir það hefur verið farið rækilega í dag.

Nálgast þarf málin með öðrum hætti og við í Samf. höfum m.a. lagt metnað okkar í það að finna leiðir til þess bæði að ræða um utanríkisstefnuna og alþjóðamálin og einnig að efna til samvinnu, þverpólitískrar samvinnu um það hvernig finna megi nýjar lausnir við nýjum vandamálum og mæta þeim viðfangsefnum sem uppi eru í dag. Gildir þá einu hvort um er að ræða öryggi og varnir Íslands og í víðara samhengi, ellegar þróunarsamvinnu við fátæk ríki. Samfylkingin hefur lagt fram þingmál um þetta í vetur og þau eru til umfjöllunar í hv. utanrmn. og ég vænti þess að þau mál og þau mál alveg sérstaklega verði afgreidd af hv. utanrmn. fyrir þinglok, þannig að við fáum einhvern botn í það, frú forseti, hvernig standa eigi að stefnumótun um öryggi og varnir landsins til langs tíma, hvernig mynda eigi um það pólitíska samstöðu, því um það held ég að við séum öll sammála að enginn vilji kljúfa þjóðina aftur í tvær fylkingar, með og á móti, eins og gerðist eftir 30. mars 1949 þegar við gengum í NATO. Ég held líka að allir hér inni, sama í hvaða flokki þeir eru, séu þess fullmeðvitaðir að vinnubrögð gamla tímans duga ekki. Finna þarf samvinnuleiðir til að móta stefnu um öryggi og varnir, til að móta utanríkisstefnu sem dugar og líka, af því að ég hef nefnt það dæmi hér áður, að móta stefnu okkar um samvinnu við fátæk ríki.

Nú kom það fram í ræðu hæstv. utanrrh. að framlög til þróunarsamvinnu munu hækka, eða það er stefna ríkisstjórnarinnar að hækka framlög til þróunarsamvinnu á næstu sex árum úr 0,19% af landsframleiðslu sem verður á þessu ári í 0,35% árið 2009. Þetta er mjög mikilsvert og gott markmið og engin hætta á öðru en það verði stutt með ráðum og dáð, hvort heldur af Samf. eða, ég vona, öllum öðrum stjórnmálaflokkum á Alþingi Íslendinga.

[19:45]

Það sem skiptir líka máli hins vegar í þessu sambandi, og það hefur verið rætt áður í þessum sal, er hvernig þessum peningum er varið, með hvaða markmiði og í samvinnu við hverja. Það er nefnilega pólitíkin í þróunarsamvinnunni sem skiptir mestu máli. Upphæðirnar skipta líka mjög miklu máli. Það vitum við öll. En það er pólitíkin í þróunarsamvinnunni sem skiptir ekki minna máli, hæstv. forseti. Ég sakna þess að hæstv. utanrrh. skuli ekki hafa borið þá umræðu hingað inn eða sé til viðtals um að sú stefnumótun fari einnig fram í samvinnu þeirra lýðræðislega kjörnu fulltrúa sem eiga sæti á hinu háa Alþingi. Áður hefur verið bent á það í þessu sambandi að stefnumótun í grundvallarmálum af þessu tagi, hvort heldur er þróunarsamvinnan eða öryggi og varnir landsins, á að fara fram á lýðræðislegum vettvangi og allra helst af lýðræðislega kjörnum fulltrúum þjóðarinnar. Ekki einvörðungu og bara innan veggja utanrrn. eins og nú er gert. Þó að útsýnið sé örugglega á stundum býsna gott af Rauðarárstígnum held ég að það verði betra, frú forseti, ef fleiri fá að taka þátt í þeirri vinnu og koma með hugmyndir sínar, að sjóndeildarhringurinn verði víkkaður og unnið verði að því í raun og veru að mynda samstöðu um þá utanríkisstefnu sem við viljum standa fyrir. Ég held að þegar allt kemur til alls, frú forseti, skilji ekki eins margt í millum eins og oft er látið vera.

Það er slík samstaða um utanríkisstefnuna sem kemur líka í veg fyrir að stjórnvöld, hvort heldur eru þau íslensku eða önnur, falli í þann fúla pytt, ég leyfi mér að taka þannig til orða, að taka óyfirvegaðar eða illa yfirvegaðar skyndiákvarðanir um grundvallarafstöðu okkar til mála eins t.d. Íraksstríðsins. Ég held að hin þverpólitíska aðferð sé miklu betra taumhald á stjórnvöld, hvort heldur þau eru samansett af Framsfl., Sjálfstfl. eða einhverjum öðrum stjórnmálaflokkum á Íslandi. Það sama gildir um alla því að þá eru markmiðin skýrari, leiðirnar að þeim líka umræddar og kortlagðar og miklu meiri líkur til þess að fólk vinni saman að þeim markmiðum og falli ekki í ágreining um allt milli himins og jarðar eins og stundum virðist verða.

Allra síðast hér í dag vil ég gera að umræðuefni þá staðreynd að í dag, 6. apríl 2004, er liðinn áratugur frá því að þjóðarmorðið í Rúanda reið yfir, þ.e. áratugur liðinn frá upphafi þess. Þá hófst glæpa- og morðalda í Mið-Afríkuríkinu Rúanda sem er eitthvað það skelfilegasta sem heimsbyggðin hefur mátt horfa upp á á síðustu árum og áratugum. Á 100 dögum var lífið murkað úr a.m.k. 800 þús. manns. Áttundi hver Rúandabúi týndi lífi sínu í þeim ósköpum og enn er að sjálfsögðu verið að reyna að græða sárin, reyna að byggja upp nýtt þjóðfélag í Rúanda og reyna að draga þá fyrir dómstólinn í Arusha sem báru ábyrgð á þessu hryllilega þjóðarmorði. Það verkefni bíður íbúa í Rúanda, nágranna þeirra og þeirra sem vilja vinna með þeim að því að endurreisa samfélagið þar.

Ástæða þess að ég nefni þetta nú er lexían sem ég vona og held, hélt a.m.k., að samfélag þjóðanna hafi dregið af þessum skelfilegu atburðum í Afríku. Ég vona að það sé hægt að taka höndum saman um að koma í veg fyrir slíka hluti með mannúðaríhlutun eins og það kallast. Við vitum samt núna að það voru ýmsir aðrir hagsmunir, ýmsir annarlegir hagsmunir, sem réðu því að stjórnvöld víða um heim, ekki síst Bandaríkin innan öryggisráðsins --- það sama á við reyndar um Belga og Frakka --- kusu að horfa í hina áttina á meðan þessu fór fram. Þó að jafnvel myndirnar af þeim hryllingi sem þarna átti sér stað væru farnar að birtast í fréttatímum sjónvarps var enn mörgum dögum og vikum eftir að það hófst talað um eitthvað sem virtist vera þjóðarmorð eða einhvers konar fjöldamorð. Það var hins vegar deginum ljósara hvað var að gerast og um það höfðu borist viðvaranir, m.a. frá friðargæsluliðum sem voru staðsettir í Kigali vegna ástandsins í Rúanda. Það er skjalfest að viðvaranir bárust um að þjóðarmorð væri í uppsiglingu.

Ég minni á þetta líka í ljósi þess að hér hefur verið rætt í dag um að þjóðarmorð hafi verið framin annars staðar og síðar. Fjöldamorð voru framin t.d. í Írak árið 1988 þegar Saddam Hussein gasaði Kúrdana. Svo virðist því miður vera, frú forseti, sem bara stundum sé gripið til aðgerða gegn slíkum níðingsverkum. Það er kannski það umhugsunarefni sem við ættum að taka í veganesti á 10 ára afmæli þessa hörmulega atburðar í Rúanda, að það er bara stundum sem alþjóðasamfélagið grípur í taumana. Við getum deilt um leiðir og markmið og við getum deilt um það hver hafi haft rétt fyrir sér, t.d. um árásina í Írak. Staðreyndirnar liggja hins vegar fyrir. 800 þús. Rúandabúar týndu lífi á 100 dögum í skipulagðasta þjóðarmorði sem framkvæmt hefur verið frá dögum Pols Pots í Kambódíu og þar áður síðan nasistarnir ákváðu að útrýma gyðingum í Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni.

Sú dapurlega staðreynd stendur eftir að alþjóðasamfélagið, eins og við kjósum stundum að kalla það, gerði lítið sem ekkert til að afstýra þessum þjóðarmorðum. Ég hef aldrei fyllilega skilið ástæðu þess eða kannski aldrei fengið að heyra þær almennilega en ég vildi koma því á framfæri í þessari umræðu að víða eru framin skelfileg voðaverk. Eins og ég minntist á í fyrri ræðu minni fara t.d. um þessar mundir stjórnvöld í Suður-Súdan með ofbeldi gegn eigin þegnum og viðbrögð alþjóðastofnana og alþjóðasamfélagsins eru ekki alltaf hin sömu. Þess vegna skiptir auðvitað mestu máli að bæði innan SÞ og annarra þeirra alþjóðastofnana sem við eigum aðild að komi ríki heims sér niður á bæði viðmið og ég held að ég megi segja verklagsreglur og almennt samkomulag um það hvernig og hvenær eigi að grípa í taumana þegar yfirvofandi eru fjöldamorð eða þjóðarmorð af þessu tagi. Það er nefnilega yfirleitt þannig, frú forseti, að slíkir voðaatburðir gera boð á undan sér. Það liggur algjörlega fyrir að þjóðarmorðið í Rúanda var þaulskipulagt og þar var gengið af yfirvegun til verks og lífið murkað úr fólki með mjög skipulegum hætti.