Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 19:55:20 (6209)

2004-04-06 19:55:20# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[19:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi aðeins taka það fram út af þróunarmálunum að á síðasta ári var birt skýrsla sem gerð var fyrir utanrrn. um þróunarmál og þróunarsamvinnu. Á grundvelli þeirrar skýrslu höfum við unnið að stefnumörkun í þessum málum. Það á sér að sjálfsögðu stað víðtæk samvinna milli Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og utanrrn. en þingflokkar eiga fulltrúa að stjórn Þróunarsamvinnustofnunar. Á ríkisstjórnarfundi í morgun var samþykkt þetta markmið sem við mundum miða að því að ná 2008--2009. Að sjálfsögðu vildi ég helst ná því 2008 en það er kannski erfitt að segja fyrir um það með fullri vissu. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því að það gerist í skrefum þannig að það verði aukning á hverju ári. Það hefur komið hér fram að þetta sé eitthvað sem muni koma þá í hlut komandi ríkisstjórnar. Að sjálfsögðu mun það koma að hluta til í hlut komandi ríkisstjórnar sem getur að sjálfsögðu breytt því þegar þar að kemur en það er mjög mikilvægt að hafa viðmið til lengri tíma í þessum efnum, setja markið kannski ekki allt of hátt, heldur reyna frekar að standa við það.

Við höfum sótt um aðild að þróunarnefnd OECD og ég mun sækja fund í París af því tilefni í næstu viku. Við gerum ráð fyrir að við fáum aðild að nefndinni. Þar hefur verið viðmið að við fáum ekki aðild nema a.m.k. sé veitt 0,2% af þjóðarframleiðslu þannig að við höfum vart náð því enn. Ég mun að sjálfsögðu vilja kynna þessi mál nánar í utanrmn. eftir því sem óskað verður eftir.