Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 19:57:35 (6210)

2004-04-06 19:57:35# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[19:57]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin.

Vissulega er það rétt að skýrsla sem Jónas Haralz og Hermann Ingólfsson skrifuðu og skiluðu til hæstv. ráðherra í haust og við áttum um umræður utan dagskrár í þingbyrjun er grundvallarplagg og mjög gott plagg. Ég hefði haldið að það ætti einmitt að nota til þess að efna til víðtækara samráðs um þróunarsamvinnuna og stefnumótunina, sérstaklega í ljósi þess að nú er verið að auka framlögin enn frekar. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að best sé að gera það jafnt og þétt og ætla sér ekki of mikið. Þess vegna held ég að það sé skynsamlegt að setja markið þar sem það hefur verið sett, við 0,35%.

Hins vegar vil ég bara ítreka þá afstöðu mína og afstöðu okkar í Samf. að þrátt fyrir fulltrúa stjórnmálaflokka eða þingflokka í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar sé verkefnið miklu stærra og víðtækara en svo að það geti algjörlega verið unnið í ráðuneytinu eða innan stofnana þess. Ég tel einboðið að löggjafinn komi að þessari vinnu með hugmyndir sínar, sína pólitísku sýn sem getur verið ólík á köflum en að út úr því komi eins góð stefna um þróunarsamvinnu fyrir Ísland og þróunarsamvinna fyrir fátæk ríki og kostur er.